Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Óheppilegt að kjósa forseta með 10% atkvæða

02.01.2016 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Það væri óheppilegt ef næsti forseti næði kjöri með mjög lágt hlutfall atkvæða, segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði. Metfjöldi frambjóðenda gaf kost á sér í síðustu forsetakosningum. Engin ákvæði eru um hversu mikið atkvæðahlutfall forseti skuli hafa á bak við sig.

Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta að gefa ekki kost á sér áfram og komandi forsetakosningar voru til umræðu í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í dag. Tæpir fimm mánuðir eru til stefnu áður en framboðsfrestur rennur út og hafa margir verið orðaðir við framboð.

Metfjöldi framboða í síðustu kosningum

Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði, rifjaði upp framboð í síðustu kosningum á landsvísu. 523 börðust um 25 sæti á Stjórnlagaþingi og metfjöldi gaf kost á sér í forsetakosningunum 2012. „Þá voru frambjóðendurnir sex, fimm á móti Ólafi. Sumir höfðu jafnvel ekki búið á landinu og voru gjörsamlega óþekktir og ekki með neitt bakland. Það aftraði þeim ekki frá því að bjóða sig fram.“

Stefanía sagði að metfjöldi nýrra framboða hefði litið dagsins ljós í síðustu þingkosningum og þá hefðu tólf prósent kjósenda kosið flokka sem hefðu engum árangri náð. Hún sagði að því mætti gera ráð fyrir að margir hygðu á framboð núna.

Ekki ákvæði um meirihlutafylgi

„Það væri mjög óheppilegt ef við kysum okkur forseta sem hefði kannski tíu prósent atkvæða á bak við sig,“ sagði Stefanía. Samkvæmt stjórnarskrá nær sá frambjóðandi kjöri sem fær flest atkvæði og þarf ekki meirihluta atkvæða til. Stefanía rifjaði upp orð Hermanns Jónassonar, fyrrverandi forsætisráðherra, um að æskilegt væri að fólk fylkti sér bak við nokkra góða frambjóðendur svo forseti hefði gott umboð á bak við sig.

Þegar lýðveldisstofnunin 1944 var undirbúin var upphaflega stefnt að því að Alþingi kysi forseta og að aukakosning yrði milli tveggja efstu ef enginn hlyti meirihluta í fyrstu atrennu. Þegar ákveðið var að þjóðin kysi forseta var ákvæði um meirihlutastuðning fellt niður.

Einn hlaut meirihluta í fyrstu atrennu

Kristján Eldjárn er eini forsetinn sem hefur náð kjöri í fyrsta sinn með meirihluta atkvæða. Hann fékk tvo þriðju hluta atkvæða þegar hann atti kappi við Gunnar Thoroddsen í forsetakosningum 1968. 

Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, var kosinn af þingmönnum á lýðveldishátíðinni 1944, til eins árs. Hann var sjálfkjörinn 1945 og 1949 þar sem engin mótframboð bárust. Þá sömdu stjórnmálaflokkarnir um að styðja hann og mælst var gegn því að aðrir byðu sig fram.

Ásgeir Ásgeirsson var fyrsti þjóðkjörni forsetinn. Hann hlaut 47 prósent atkvæða árið 1952, eftir að Sveinn Björnsson féll frá. Þá voru þrír í framboði. Bjarni Jónsson hlaut 44 prósent atkvæða og Gísli Sveinsson sex prósent.

Vigdís kosin með þriðjungi atkvæða og 93 prósentum

Vigdís Finnbogadóttir er sá forseti sem hefur hlotið kosningu með lægsta atkvæðahlutfallið, í fyrstu atrennu. Hún hlaut 34 prósent atkvæða 1980. Guðlaugur Þorvaldsson hlaut 32 prósent atkvæða og 20 prósent kusu Albert Guðmundsson. Pétur J. Thorsteinsson hlaut fjórtán prósent atkvæða. Vigdís varð 1988 fyrsti forsetinn til að fá mótframboð. Hún hlaut 93 prósent atkvæða gegn sjö prósentum sem Sigrún Þorsteinsdóttir fékk. Vigdís er því ekki aðeins sá forseti sem náði kjöri með lægsta atkvæðahlutfallinu heldur líka því hæsta.

Ólafur Ragnar Grímsson hlaut 41 prósent atkvæða þegar hann var fyrst kosinn forseti 1996. Pétur Kr. Hafstein hlaut tæp 30 prósent og Guðrún Agnarsdóttir 26 prósent. Ástþór Magnússon hlaut tæp þrjú prósent atkvæða. Ólafur hefur tvisvar hlotið mótframboð. 2004 greiddu 68 prósent honum atkvæði sitt en Baldur Ágústsson fékk tíu prósent atkvæða og Ástþór Magnússon hálft annað prósent. Fimmti hver atkvæðaseðill var auður.

Fyrir fjórum árum hlaut Ólafur Ragnar 53 prósent atkvæða. Þóra Arnórsdóttir fékk 33 prósent og Ari Trausti Guðmundsson níu prósent. Herdís Þorgeirsdóttir fékk tæp þrjú prósent, Andrea Ólafsdóttir tæp tvö prósent og Hannes Bjarnason eitt prósent.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV