Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Óheppilegt að hætta við þróunarverkefni

11.12.2013 - 10:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi segir að mjög óheppilegt sé að bakka með stór verkefni á sviði þróunaraðstoðar. Slík verkefni séu styrkt með myndarlegu mótframlagi frá stofnunum eins og Evrópusambandinu og Alþjóðabankanum.

Fyrirhugaður niðurskurður í þróunaraðstoð um 400 milljónir króna mun að líkindum bitna á jarðhitaverkefni Þróunarsamvinnustofnunar. „Það þýðir að það þarf að hætta verkefnum eða minnka þau mjög verulega. Það er auðvitað mjög erfitt sérstaklega í svona þróunarverkefnum þar sem búið er að gera samninga og áætlanir, bæði við þá sem verið er að vinna með á staðnum en ekki síður aðrar þróunarstofnanir sem hafa lagt til peninga inn í verkefni,“ segir Stefán. 

Fyrir höndum sé erfitt verkefni að skera niður og loka verkefnum. „Varðandi verkefni Þróunarsamvinnustofnunar á sviði jarðhita, þá hafa komið stórar alþjóðlegar stofnanir sem hafa lagt til umtalsverða fjármuni inn í verkefnin og í rauninni stækkað og margfaldað verkefnin og áhrif þeirra. Ef Ísland dregur sig úr þeim verkefnum mun það hafa áhrif á það samstarf allt saman.“