Óheimilt að fara gegn tillögu Vegagerðarinnar

10.01.2019 - 20:10
Sveitarstjórn Reykhólahrepps er óheimilt að fara gegn tillögu Vegagerðarinnar að leiðarvali Vestfjarðavegs um Gufudalssveit, leiði það til minna umferðaröryggis. Samkvæmt óháðu mati á umferðaröryggi er tillaga að leið um Reykhóla með brú yfir Þorskafjörð óöruggari en um Teigsskóg.

Vilja fara um Teigsskóg

Vegagerðin kynnti afstöðu sína til leiðarvals á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit á blaðamannafundi í dag og á fjölmennum íbúafundi á Reykhólum í gær. Vegagerðin hefur árum saman talið leið Þ-H um Teigsskóg vænlegustu leiðina. „Hún er styttri fyrir meginhluta umferðarinnar og er öruggari leið, það eru náttúrlega megin rökin fyrir þeirri leið. Hún er líka komin lengra í skipulagi og búin að fara í mat á umhverfisáhrifum,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar.

Valkostagreining mælti með leið R

Niðurstaða umhverfismatsins var að leiðin um Teigsskóg er talin valda miklum umhverfisáhrifum og sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur því leitað annarra leiða. Í valkostagreiningu sem var unnin fyrir sveitarfélagið er tillaga norsku verkfræðistofunnar Multiconsult, svokölluð leið R, eftir Reykhólasveitarvegi frá Vestfjarðavegi að Reykhólum og með brú yfir Þorskafjörð, talin vænlegasti kosturinn.

Uppfyllir ekki kröfur um umferðaröryggi

Sveitarstjórn hyggst velja leið í næstu viku en á fundi Vegagerðarinnar var greint frá því að samkvæmt óháðu mati á umferðaröryggi uppfylli leið R ekki kröfur um umferðaröryggi. „Þeim er óheimilt að fara gegn tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis sem er ein af ástæðum þess að við teljum nauðsynlegt að byggja upp Reykhólaveginn eigi hann að þjóna hlutverki sem Vestfjarðavegur,“ segir Guðmundur.

Uppbygging á Reykhólavegi nauðsynleg

Með uppbyggingu á Reykhólasveitarvegi er gert ráð fyrir því að munurinn á kostnaði leiðanna tveggja sé fjórir milljarðar. Í valkostagreiningunni, sem var unnin fyrir sveitarfélagið, er gagnrýnt að kostnaður við leiðirnar sé ekki borinn saman án Reykhólasveitarvegar, en Vegagerðin telur hann órjúfanlegan hluta af heildinni. „Við metum hann þannig að hann sé ekki hæfur sem stofnvegur fyrir þunga umferð, hann hæfir þeirri umferð sem er á honum í dag sem er 130 bílar að meðaltali á dag. En áætluð um ferð á Vestfjarðavegi efitr opnun Dýrafjarðargagna eru 400 bílar á dag og það eru allt aðrar forsendur og notkun á þeim vegi,“ segir Guðmundur.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi