Óháð úttekt á sjóðum Gamma

04.10.2019 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óháður aðili verður fenginn til að skoða málefni tveggja sjóða Gamma, Novus og Anglia. Lagt hefur verið fram frumvarp á þingi sem herðir eftirlit með sjóðum sem þessum.

Eigið fé Gamma Novus rýrnaði um 99 prósent og Gamma Anglia um 50 prósent eftir að nýir eigendur Gamma endurmátu eignir sjóðanna. Fjárfestar í sjóðunum, ekki síst Novus, hafa á undanförnum dögum lýst yfir mikilli óánægju með stöðuna og kallað eftir ítarlegum upplýsingum. Óánægjan er ekki síðri á meðal nýrra stjórnenda Gamma og Kviku sem tók félagið yfir í vor, enda töldu þeir eignir sjóðanna mun traustari þegar yfirtakan fór í gegn. Þessi slæma staða kom þeim í opna skjöldu og er málið litið mjög alvarlegum augum.

Óháðir utanaðkomandi sérfræðingar hafa verið fengnir til að fara yfir málefni sjóðanna tveggja. Samkvæmt heimildum fréttastofu verða samningar og fasteignafélagsins Upphafs, sem er helsta eign Gamma Novus, skoðaðir sérstaklega enUpphaf á í miklum greiðsluerfiðleikum og þarf um milljarð króna til að geta klárað útistandandi verkefni. Það verður svo á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem lagt verður mat á hvaða frekari aðgerða verður gripið til.

Forráðamenn Gamma hafa undanfarna daga fundað með fjárfestum í sjóðunum og kynnt þeim áætlanir um hvernig bjarga eigi Upphafi og um leið tryggja hámarks endurheimt úr sjóðunum. Felst áætlunin í að klára byggingu íbúða sem flestar eru langt komnar og selja aðrar sem eru komnar skemmra á veg. Það liggur fyrir á þriðjudaginn hvort fjármagn fæst frá kröfuhöfum til að bjarga Upphafi, að öðrum kosti þarf Gamma að leita annarra leiða.

Þegar staðan varð ljóst tlkynntu forráðamenn Gamma Fjármálaeftirlitinu um stöðu sjóðanna tveggja. Fjármálaeftirlitið hefur ekki viljað upplýsa í hvaða farvegi málið er. Á heimasíðu eftirlitsins er tekið fram að fagfjárfestasjóðir eins og Novus og Anglia lúti ekki eins ströngum kröfum og verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðir og eftirlitið þar af leiðandi ekki eins strangt. Hins vegar er vakin athygli á því að birt hafa verið drög að frumvarpi þar sem talsvert ítarlegri kröfur verða gerðar til fagfjárfesta sjóða, verði frumvarpið að lögum.

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi