Ögmundur vill lögbann við Kerið

Mynd með færslu
 Mynd:
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri-grænna, segir að fara þurfi fram á lögbann við Kerið og stöðva áform um gjaldtöku við Dettifoss. Þetta eru viðbrögð hans við því að Héraðsdómur Suðurlands samþykkti lögbannsbeiðni á gjaldtöku við Geysi. Ekkert gjald hefur verið innheimt við Kerið frá áramótum.

Ögmundur segir á heimasíðu sinni að gjaldtakan við Geysi stríði gegn landslögum og hafi þegar valdið miklu tjóni fyrir ferðaþjónustuna. Hann segir óskiljanlegt hvers vegna gjaldtakan var látin líðast en fagnar úrskurði Héraðsdóms Suðurlands.

Kerfélagið hóf í fyrra innheimtu 350 króna gjalds af þeim sem vildu skoða svæðið.

„Sjálfum finnst mér Kerið síður áhugavert með ný-uppsettum girðingum. Undrunin að koma að gígnum án skúra og girðinga er einfaldlega áhrifaríkari!" segir Ögmundur í færslunni þar sem hann lýsir þörf á lögbann við Kerið.

Óskar Magnússon, talsmaður Kerfélagsins, vildi lítið tjá sig um lögbannshugmyndir Ögmundar. Hann sagði að engin gjaldtaka hefði verið við Kerið frá áramótum. Umferð ferðamanna þar væri minni en á fjölmennustu ferðamannastöðum og gjaldtaka hefði ekki svarað kostnaði.

[email protected]

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi