Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„ ... og silfurbláan Eyjafjallatind“

Mynd: Christian Bickel / Wikimedia

„ ... og silfurbláan Eyjafjallatind“

27.01.2018 - 13:13

Höfundar

Líta má á jökla sem eins konar „erkitákn Íslands“ svo óhöndlanlegir og ólýsanlegir sem þessar hvítu óþekktu breiður og hrikalegir tindar lengst af voru. Það var heldur ekki fyrr en á sautjándu öld að farið var líta á ásýnd þeirra og form sem eitthvað aðlaðandi, jafnvel fagurt.

Heimspekingar og skáld höfðu reyndar þá þegar velt vöngum yfir því hvaða hugtak gæti náð yfir allt það sem teldist mikilfenglegt og stórbrotið en væri ekki einungis hugfróandi fegurð. Þessi nýi skilningur á hrikalegri fegurð tengdist á sínum tíma nýrri náttúrusýn vestrænna manna á síðari öldum. Hið háleita sem þýðing á enska orðinu „sublime,“ eða hinu þýska „das Erhabene“ og danska hugtakinu  „det ophöjede“ varð gjaldgengt hugtak að nota í fagurfræði.

Samkvæmt þessari nýju sýn töldust nú ekki að eins bú – og friðsældarlegir dalir, hæðardrög og stillt stöðuvötn til fagurra náttúrufyrirbrigða heldur einnig „ólgusjór, eyðilegt landslag, djúpar klettagjár, himinhá fjöll og jöklar töldust háleit.“ Hugtak sem myndar andstæðu við hið fagra sem einkenndist af „fagurfræðilegu samræmi, sígildum hlutföllum“  og auk þess að vera smágerðara, vekti hvorki ógn né óttablandna virðingu.

Skilningur á hrikalegu landslagi hefur í gegnum tíðina verið margvíslegur, þannig hélt Englendingurinn Thomas Burnett því fram seint á sautjándu öld að „fjallgarðar, gljúfur og eyðimerkur væru ummerki eftir syndaflóðið“ og slíkt landslag ægifegurðar því til þess fallið að tengja manneskjuna guðdómnum og væri því háleitt.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
J.M.W. Turner – Snjóflóð
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Caspar David Friedrich – Ferðalangur ofar þokuskýjum

Skáld einkum þau rómantísku tókust ekki síður á við þann efnivið sem hið hrikalega var og sóttu sér yrkisefni í ýmis konar ógnir og hrylling og nægir þar að benda á Manfred Byrons og Frankenstein Mary Shelley. Einnig íslensk skáld nítjándu aldarinnar hrifust af hinu háleita og voru þeim kannski hæg heimatökin eins og Sveinn Yngvi Egilsson hefur rakið i ýmsum greinum sem og í kafla í bók sinni Náttúra ljóðsins frá 2014 og hann sagði frá í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Sveinn Yngvi Egilsson. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Sveinn nálgast hugtak hins háleita í skáldskap fyrst og fremst út frá orðræðu í víðum skilningi og tekur sem dæmi ljóðið „Mont Blanc“ eftir Percy Bysshe Shelley annars vegar og kvæðið „Hafísinn“ eftir Matthías Jocumsson. Sveinn rekur sameiginleg einkenni þeirra í samræmi við grundvallarreglur sem augljóslega urðu ríkjandi í skáldskap á þessum tíma, á átjándu öld á Englandi, og hundrað árum síðar eða svo á Íslandi. Í þessum skilningi er hið ólýsanlega, hið ógreinlega sem skreppi undan orðunum sem samt verður að finna. Mörg kvæða Einars Benediktssonar fjalla um hið háleita enda orti hann mikið um vatn og haf.

Einnig má benda á að í fjölmörgum ættjarðarljóðum nítjándu aldar eru jöklarnir eða jökull það fyrsta sem nefnt er í kvæðinu og kannski ekki að undra þegar kveðið er um land sem beinlínis er kennt við ís. Jafnvel mynd hinnar óumdeildu sjálfstæðishetju, Jóns Sigurðssonar forseta, er oft tengd jöklum og ís, „enda varð Jón Sigurðsson snemma hvíthærður.“ Sveinn Yngvi sýnir fram á að mynd jökulsins hefur tengst ímynd forseta Íslands einnig á síðari tímum.