Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ofurtölva fyrir veðurspár hýst hér á landi

15.11.2014 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Veðurstofa Íslands og danska veðurstofan, DMI, hafa gert samning um stóraukið samstarfs á sviði rannsókna og veðurtengdrar þjónustu. Hann felur meðal annars í sér að ný ofurtölva dönsku veðurstofunnar verður hýst á Íslandi og veðurstofan hér hefur aðgang að henni.

Ástæðan fyrir þessu er sú að nýja tölvan er tíu sinnum stærri en sú sem danska veðurstofan er nú með, og þarf því miklu meira rafmagn, sem er mun ódýrara hér. Í dönskum fjölmiðlum kemur fram að orkusparnaðurinn sé 440 megawattstundir á ári, sem samsvari rafmagnsnotkun 100 heimila.

Hafdís Karlsdóttir, staðgengill forstjóra Veðurstofu Íslands, segir samninginn þýðingarmikinn. „Þetta er stærra spásvæði sem við munum fá keyrslu á, stærra en við getum keyrt í dag. Og það verða nákvæmari keyrslur sem við fáum út úr þessu þannig að veðurspár ættu að verða betri.“

Þá veiti samningurinn aðgang að sérfræðingum dönsku veðurstofunnar og komi á samstarfi í rannsóknum. Áætlað er að tölvan verði komin í gang í lok næsta árs en eftir það er áætlað að það taki tíma að setja hana upp. Hafdís segir þetta líka opna möguleika fyrir önnur verkefni veðurstofunnar. „Að hafa aðgang að þessari reiknigetu sem tölvan býður upp á eykur möguleikana, í jarðvísindunum líka, ekki bara í sambandi við veður.“

Stefnt er að því að öll Norðurlöndin sameinist um eina ofurtölvu fyrir veðurspár árið 2020. Hafdís segir samninginn opna möguleikann á því að Ísland hýsi þá tölvu, en hún þarf að vera í stöðugri vinnslu. „Og ef við getum sýnt fram á það að við getum það héðan frá Íslandi þá er ekki spurning að það opnar möguleika fyrir Ísland almennt. Og þá er ég ekki bara að tala um Veðurstofuna sem slíka, við erum ekki að fara í hýsingarþjónustu, heldur almennt á Íslandi, að sýna fram á að það er hægt að gera þetta héðan.“