Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Oflækningar geta valdið skaða

11.07.2019 - 09:10
Hönd í vasa læknisslopps og hlustunarpípa.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Læknafélagið ætlar að skoða oflækningar og kanna viðhorf lækna til fullyrðinga um að oflækningar séu stundaðar hér á landi. Þetta segir Reynir Arngrímsson formaður Læknafélagsins í Læknablaðinu. Átakið leiði til faglegra endurbóta á þjónustunni en strandi hins vegar á fjármagni. Hann segir nauðsynlegt að spyrja hvort sannanlega sé þörf á meðferð eða rannsókn í hverju tilviki. Stefán Hjörleifsson læknir segir að fólk geti orðið fyrir skaða við oflækningar.

Reynir segist telja að það séu vísbendingar um oflækningar hér á landi. Það sjáist til dæmis í því að átak hjá heilsugæslunni hafi skilað sér í því að ávísanir á sýklalyf hafi dregist mjög saman. Þá megi benda á of frjálslega notkun sterkra ópíóíða-verkjalyfja. Reynsla lækna sýni að endurskoða þurfi hvernig lyfin séu notuð hérlendis.

Eiga að spyrja sig lykilspurninga áður en læknisverk er hafið

Hugmyndafræðin snýst um snjallt val. „Snjallt val eða þekkingarmiðað val á heilbrigðisþjónustu gengur í stuttu máli út á að bæði læknar og notendur heilbrigðisþjónustunnar eiga að spyrja sig lykilspurninga áður en sérhvert læknisverk er hafið,“ segir Reynir. 

Í þessu felist meðal annars að ekki eigi að endurtaka áður gerðar rannsóknir eða íhlutanir. Læknar í hverri sérgrein eigi að rýna í eigin vinnuhætti og finna fimm úr sér gengin úrræði og rannsóknir sem tímabært er að leggja af. Þá þurfi að fræða þá sem leita eftir slíkum úrræðum um breytta meðferðarnálgun. 

Tryggja þarf fjármagn og finna samstarfsaðila

Í Læknablaðinu kemur fram að tuttugu ríki hafi ráðist í sams konar átak sem miðar að því að hvetja sjúklinga, aðstandendur þeirra og lækna til að hverfa frá oflækningum og óþarfri meðferð á sjúklingum. Reynir segir að takist að tryggja fjármagn verði ráðist í verkið. Byrjunin sé að upplýsa um þennan möguleika og kanna hverjir geti haft samstarf um átakið við Læknafélagið. 

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að heilsugæslan geti hugsað sér að vera með í þessu jákvæða átaki. 

Læknar undir margvíslegri pressu

Sigríður Dóra segir að margar ástæður geti legið að baki oflækningum. Heimilislæknar séu undir margvíslegri pressu. Þar megi nefna umfjöllun í samfélaginu, tímapressu og fleira. Þeir velji oft fljótlegustu leiðina, skrifi upp á lyf eða komi sjúklingi annað, í stað þess að reyna að sannfæra hann um að það sé í lagi að bíða og sjá, segir hún. Þetta sé raunveruleiki heimilislækna í dag. 

Stefán Hjörleifsson, heimilislæknir í Haukeland í Noregi, sem fer fyrir átakinu þar í landi, segir að tímaskortur, fjárhagslegar aðstæður og óvissa séu meðal helstu ástæðna oflækninga meðal norskra lækna. Samkvæmt könnun sem gerð var í Noregi segjast tveir af hverjum þremur læknum taka þátt í oflækningum. Alls voru 1.500 læknar spurðir.

Meira ekki alltaf betra

Stefán segir að meira sé ekki alltaf betra. Fólk geti orðið fyrir skaða við oflækningar. „Stundum valda rannsóknir óþarfa ótta hjá fólki. Stundum finnst eitthvað sem þurfti ekki að finna, stundum er fólk sett í meðferð sem það þurfti ekki. Fólk hefur fengið lyf sem það þurfti ekki eða farið í aðgerðir að óþörfu.“ Hann segir að tilgangurinn með átakinu sé að forðast tjón. Þar að auki komi það í veg fyrir sóun.

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn