Öfgahópar og umhverfisvá

Mynd með færslu
 Mynd:

Öfgahópar og umhverfisvá

12.05.2014 - 15:45
Þegar reynt er að skýra tilvist ofbeldisfullra öfgahópa á borð við Boko Haram í Nígeríu, er oftast litið til pólitískra og trúarlegra þátta. Að líkindum þarf þó að kafa dýpra til að sjá samhengi orsaka og afleiðinga, segir Stefán Gíslason í umhverfispistli dagsins.

Stefán vitnar í nýlega grein Nafeez Ahmed í The Guardian, en þar er vakin athygli á að ástandið í Nígeríu hafi orðið sífellt óstöðugra síðastliðinn áratug og ein ástæðan fyrir því séu loftslagsbreytingar. Þær hafi leitt til skorts á landi og vatni, sem aftur leiddi til ólgu og ófriðar. Og þar með komnar kjöraðstæður fyrir öfgahópa sem laða til sín reiða, unga menn sem telja sig ekki hafa neinu að tapa. 

Sjónmál mánudaginn 12. maí 2014

----------------------------------------------------  

Pistill Stefáns - Umhverfið og Boko Haram 

Öfgahópar af ýmsu tagi hafa náð að skjóta föstum rótum í ýmsum löndum Afríku, þar sem þeir hafa staðið fyrir ýmsum óhæfuverkum síðustu mánuði og ár. Nærtækasta dæmið um þetta eru samtökin Boko Haram, samtök íslamskra öfgamanna í Nígeríu, sem rændu á þriðja hundrað unglingsstúlkna í síðasta mánuði. Ýmsar kenningar eru uppi um það hvers vegna samtök á borð við Boko Haram hafa náð að verða svo öflug sem raun ber vitni. Einhverjir halda því líklega fram að uppgangur samtakanna sé af trúarlegum toga, en þau rök standast í raun og veru ekki skoðun. Aðrir halda því fram að samtökin eigi sér pólítískt bakland og sé annað hvort ætlað að vinna gegn forseta landsins eða gegn andstæðingum hans. Líklega liggja þó ræturnar enn dýpra og eigi sér meðal annars skýringar í umhverfislegum þáttum. Ef menn ætla sér að uppræta samtökin duga því vélbyssur skammt, því að á meðan ekki er ráðist að rótum vandans munu öfgahópar verða enn öflugri en þeir eru nú, hvort sem þeir kalla sig Boko Haram eða eitthvað annað.

Síðastliðinn föstudag birti The Guardian pistil um uppgang Boko Haram, en pistilinn ritaði Nafeez Ahmed, breskur doktor í alþjóðasamskiptum, sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á tengslum ófriðar við versnandi áhrif umhverfismála. Í pistlinum bendir Nafeez á að á síðasta áratug hafi ástandið í Nígeríu orðið sífellt óstöðugra og að ein ástæðan fyrir því séu loftslagsbreytingar. Fyrir fimm árum hafi breska þróunarráðuneytið varað við því hvert stefndi og í nýlegri rannsókn bandarísku stofnunarinnar US Institute for Peace hafi verið sýnt fram á skýr tengsl milli loftslagsbreytinga og vaxandi ofbeldis í Nígeríu. Í niðurstöðum skýrslunnar segi m.a. að ófullnægjandi viðbrögð við loftslagsbreytingum hafi leitt til skorts á auðlindum á borð við land og vatn, sem aftur hafi leitt af sér sjúkdóma, hungur og atvinnuleysi. Ófullnægjandi viðbrögð við þessum óbeinu afleiðingum hafi svo skapað aðstæður fyrir ólgu og ófrið. Í skýrslunni segi enn fremur að ef svo heldur sem horfir muni Nígería þurfa að kljást við enn meiri breytingar á hitastigi, úrkomu, vindum og sjávarstöðu alla þessa öld, og ef ekki verði gripið til viðeigandi ráðstafana til að aðlagast þessum breytingum geti ástandið leitt til enn meiri ofbeldisverka í sumum héruðum landsins.

Nafeez Ahmed vitnar meðal annars í Sabo Bako, sem á sínum tíma var prófessor við Ahmadu Bello háskólann í Nígeríu. Að hans sögn óx Boko Haram upp úr sértrúarsöfnuði í Norður-Nígeríu, en í þeim söfnuði voru mörg fórnarlömb umhverfisslysa. Þetta fólk hefði lifað í algjöru öngþveiti fátækar og upplausnar í vonlausri leit að mat, vatni, húsaskjóli, atvinnu og afkomumöguleikum. Seinni athuganir hafi sýnt að margir af fótgönguliðum Boko Haram séu fólk sem hafi lent á vergangi vegna alvarlegra þurrka og matarskorts í nágrannalöndunum Níger og Chad. Þaðan hafi um 200.000 bændur og hirðingjar flúið yfir landamærin til Nígeríu eftir að hafa misst lífsviðurværi sitt vegna breytinga í umhverfinu. Margir þessara manna hafi vissulega sest að í Lagos og fleiri borgum og nái þar að sjá sér og sínum farborða með því að leggja hart að sér við vinnu, en aðrir hafi að öllum líkindum verið ginntir til fylgis við Boko Haram. 

Yfirstandandi orkukreppa í Nígeríu hefur gert ástandið í landinu enn verra. Mjög er farið að ganga á olíuna í þekktum olíulindum landsins og nú sjá menn fram á 15-20% árlegan samdrátt í olíuframleiðslunni. Olíutekjur stjórnvalda hafa að sama skapi farið minnkandi á síðustu mánuðum, og því hefur verið gripið til þess ráðs að draga verulega úr niðurgreiðslum á eldsneyti til landsmanna. Orkukreppan hefur þannig verið færð yfir á herðar almennings og þetta hefur skapað mikla ónægju og óróa. Kjör fólks hafa ekki bara versnað, heldur hafa kjör þeirra sem minna mega sín versnað meira en kjör hinna. Misrétti hefur með öðrum orðum aukist. Fólk í norðanverðri Nígeríu, þaðan sem Boko Haram er upprunnið, hefur ekki notið ávaxtanna af olíuauðnum og þar eru kjör enn verri en annars staðar í landinu. Um 70% af íbúum þessa svæðis draga fram lífið á minna en einum dollara á dag og sjúkdómar og ólæsi eru landlæg vandamál. Blaðamaðurinn David Francis, sem var einn þeirra fyrstu til að skrifa um Boko Haram, hefur bent á að fótgönguliðarnir séu upp til hópa ekki íslamskir öfgamenn, heldur einfaldlega bláfátæk ungmenni sem sterkum leiðtogum hafi tekist að snúa til ofbeldisfullrar baráttu gegn óréttlæti og spilltum stjórnvöldum.

Alþjóðleg stórfyrirtæki og stjórnvöld í vestrænum ríkjum eiga sinn þátt í því hvernig komið er fyrir Nígeríu. Spilling innan stjórnkerfisins í Nígeríu og almenn upplausn þar og í öðrum olíuríkjum í nágrenninu hefur nýst vestrænum aðilum vel til þess að ná ítökum í olíuvinnslunni og þeim miklu hagsmunum sem þar liggja. Í stað þess að beita sér gegn spillingunni hafa menn jafnvel ýtt undir hana til að gera leiðina að auðnum greiðari. Þetta hefur leitt af sér enn meiri og meira áberandi misskiptingu innanlands en ella hefði verið. Inn í þetta blandast svo önnur og flóknari mál sem snúa að stuðningi vestrænna stjórnvalda við einstaka hópa eða samtök í norðanverðri Afríku, sem hefur ef til vill virst snjall leikur í upphafi, en hefur síðan haft einhver allt önnur áhrif en ætlað var. 

„Fátækt fólk er ekki vont fólk“, eins og einhver góður maður orðaði það í rökræðum um bakgrunn hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Örbirgð og örvænting skapa hins vegar ákjósanlegar aðstæður fyrir sterka einstaklinga sem sæta lagi til að laða til sín ungmenni sem hafa engu að tapa og eru tilbúin að gera nánast hvað sem er í skiptum fyrir fyrirheit um eitthvað betra hinum megin við hornið. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru liður í því að skapa þessar aðstæður. Í nýjustu skýrslum Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er bent á að baráttan um takmarkaðar auðlindir muni leiða til enn frekari átaka. Þessi þróun blasir nú þegar við, hvort sem hún birtist í líki Boko Haram eða undir einhverjum öðrum formerkjum. Þetta á sem sagt bara eftir að versna, nema menn ákveði að ráðast að rótum vandans. Í þessu sambandi öllu er líka mikilvægt að minnast þess að það er hvorki fólkið í norðanverðri Nígeríu né spillt stjórnvöld í þeim heimshluta sem eiga mestan þátt í loftslagsbreytingunum. Sökudólgarnir í því máli erum við, þessi 15 eða 20% mannskyns sem höfum tekið til okkar 80-90% af auðlindum jarðar.

Þegar allt kemur til alls eru stúlkurnar sem Boko Haram rændu í Nígeríu ekki bara fórnarlömb íslamskrar öfgastefnu, heldur líka fórnarlömb aðstæðna sem vestræn ríki hafa leyft að skapast og jafnvel ýtt undir með aðgerðaleysi í loftslagsmálum og ásókn í auðlindir Afríku.