Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Offramboð af íbúðum í miðborginni

31.01.2019 - 19:26
Mynd:  / 
Offramboð er á íbúðum í miðborg Reykjavíkur, segir einn eigandi nýbyggingar, sem ekki hefur tekist að selja íbúðir á almennum markaði. Borgin hafnaði skammtímaleigu þar því gististaðakvóti í Kvosinni er fullnýttur. Tímabundið ástand, segir formaður skipulagsráðs.
Mynd með færslu
 Mynd:

Svo mikið er í smíðum eða hefur nýlega verið byggt af íbúðum í miðborginni að leita þarf að minnsta kosti langt aftur til að finna álíka uppgang. Þar má nefna Barónsstígsreitinn, Frakkastígsreitinn, og neðar Hafnartorg þar sem verða 76 íbúðir. Austurhöfn með 71 íbúð er skemmra á veg komin.

Mynd með færslu
 Mynd:
Tryggvagata 13 til hægri.

Ókláruð bygging á vegum borgarinnar fældi frá

Í nýbyggingunni við Tryggvagötu 13 hefur fjöldi íbúða verið seldur. Eigendurnir sóttu um tímabundið leyfi til skammtímaleigu á nokkrum íbúðanna. 

„Það er meðal annars vegna dræmrar sölu á markaðnum eins og er,“ segir Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og einn eigenda Tryggvagötu 13. Hún var jafnframt samræmingarhönnuður á húsinu. 

Hún segir að fólk hafi meðal annars ekki viljað kaupa vegna ófrágenginnar viðbyggingar Borgarbókasafnsins. 

„Svo er það líka mikið offramboð. Og markaðurinn einfaldlega getur ekki tekið við þessu framboði.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmgott anddyrið prýðir listaverk eftir Leif Breiðfjörð.

Leigan stendur ekki undir kostnaði

Hildigunnur segir að í upphafi hafi þau óskað eftir að gera litlar íbúðir fyrir fyrstu íbúðarkaupendur. Því hafi borgin hafnað. Dýrara sé að byggja í miðbænum, meðal annars vegna neðansjávarframkvæmdar til að gera kjallara. 

„Það er ekki hægt að bjóða almennum leigjendum, sem eru yfirleitt ekki með of mikið á milli handanna, upp á það verð sem þarf til að íbúðirnar standi undir sér,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs.

Kvótinn í Kvosinni fullur

„Við erum búin að gera breytingu á aðalskipulagi þar sem við setjum þak á alla hóteluppbyggingu og svona skammtímaleigu íbúða í miðbænum,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs.

Borgarráð staðfesti í síðustu viku synjun skipulags- og samgönguráðs og bókaði meirihlutinn að gististaðakvóti upp á 23% í Kvosinni væri þegar uppfylltur. Borgin hafði áður hafnað skammtímaleiguíbúðum á Hafnartorgi. 

Hildigunnur er óánægð með niðurstöðuna:

„Þetta eru mikil vonbrigði og sérstaklega af því að í öllum skipulagsfræðum þá er lögð ofuráhersla á það sé viss sveigjanleiki í skipulagi og að skipulag sé alltaf í tengslum við raunveruleikann. Staðan er grafalvarleg núna.“

Gæti borgin sýnt meiri sveigjanleika?

„Ég held að þetta sé tímabundið ástand og ég hef ekki áhyggjur til langs tíma,“ segir Sigurborg. 

Hún segir að áður en kvótinn hafi verið settur hafi íbúum fækkað í miðbænum en íbúðum fjölgað. En eftir kvótasetninguna í fyrra hafi íbúum fjölgað aftur. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Austurhöfn og Hafnartorg séð frá Tryggvagötu 13

Ekki rætt um íbúðir sem seljast vel

„Það er sko bara hræðilegt offramboð. Það er farið alltof hratt,“ segir Hildigunnur

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs segir ekki verið að byggja of mikið: 

„Tölurnar sýna okkur að það er líka verið að byggja mjög mikið af smærri íbúðum. Og það er ekki jafnmikil umræða einmitt um þær íbúðir einfaldlega vegna þess að salan á þeim gengur betur. Þannig að ég held að þetta leiti allt í jafnvægi á endanum.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Barónsreitur.
Mynd með færslu
 Mynd:
Frakkastígsreitur.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV