Off-venue tónleikar RÚV núll á Airwaves

Mynd með færslu
 Mynd:

Off-venue tónleikar RÚV núll á Airwaves

19.11.2018 - 14:11
Þrír ungir og efnilegir tónlistarmenn komu fram á off-venue tónleikum RÚV núll í tengslum við Iceland Airwaves tónlistarhátíðina. Hér að neðan má sjá upptökur af hverju og einu tónlistaratriði.

Tónlistarkonan Matthildur steig fyrst á svið. Þetta voru hennar fyrstu opinberu tónleikar en ljóst er að hér er mikil hæfileikakona á ferð. Fyrr á þessu ári gaf Matthildur út lögin Wonder og Heartbeat ásamt því að syngja lagið JÁKVÆÐUR með tónlistarmanninum Auður á nýútkominni plötu hans. Á tónleikunum flutti Matthildur fullt af nýju efni sem til stendur að gefa út á næstunni.

 

Rapparinn Haki kom einnig fram á tónleikunum. Hann er nýorðinn 17 ára en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann hlotið verðskuldaða athygli innan íslensku tónlistarsenunnar. Haki hefur gefið út tvö lög, Know-Wassup og Vinna vel sem bæði hafa fengið góðar viðtökur á Spotify, en að sögn hans er meira efni á leiðinni. Eitthvað af þessu nýja efni má heyra í lifandi flutningi hér í meðfylgjandi upptöku af tónleikunum síðastliðinn föstudag.

 

Rapparinn Þorri steig síðastur á svið. Hann stefnir á útgáfu sinnar fyrstu plötu næstkomandi föstudag, 23. nóvember. Þorri hefur nýverið gefið út sitt fyrsta myndband við lagið VETEMENTS en fyrir það hafði hann gefið út nokkur lög sem hafa fengið mikla spilun á Spotify. Platan sem kemur út á föstudag ber að sjálfsögðu heitið Ost alla daga. Nokkur lög á plötunni eru samstarfsverkefni við aðra listamenn, til að mynda Króla og Birgi Hákon.