„Ofbeldistaktík“ að geysast fram án fyrirvara

24.01.2019 - 19:23
Mynd:  / 
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist vera í hálfgerðu áfalli eftir að Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, sneru aftur á þing. Hún segir að vanlíðanin hafi verið auðsjáanleg á göngum Alþingis í allan dag. „Þetta er náttúrulega bara þessi ofbeldistaktík sem þessir ágætu menn hafa sýnt fram til þessa, að geysast fram á völlinn án þess að gefa nokkrum einasta manni neinn fyrirvara. Þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti.“

Bergþór er formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Inga telur best að breyting verði á því. „Það væri afskaplega æskilegt að hann myndi víkja og gefa öðrum síður umdeildum Miðflokksmanni tækifæri á að setjast í sætið sitt. Staðreyndin er sú að fyrir nefndirnar koma einstaklingar úr þeim þjóðfélagshópum sem fengu þessa útreið hjá þeim á Klausturbar, bæði öryrkjar og samkynhneigðir og fatlað fólk. Auðvitað ætti hann að gera það. En þessir einstaklingar, maður veit aldrei hvað þeir gera næst. Þeir eru núna dálítið að reyna að mála sig sem fórnarlamb. Það er svolítið sérstakt.“

Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason voru reknir úr Flokki fólksins og þingflokki flokksins eftir að upptökur voru birtar af orðum þeirra á fundi með Miðflokksfólki á Klausturbar. Inga segist enn sem fyrr telja að þeir eigi eftir að ganga í Miðflokkinn.