Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ofbeldismenn og umhyggjusamir feður“

Myndin er úr safni. - Mynd: Anton Brink / Ruv.is
„Þeir eru meðvitaðir um mikilvægi þess að skaffa vel og líta á sig sem umhyggjusama feður. Þeir viðurkenna flestir að þeir séu ofbeldismenn en vilja síður taka á sig sökina.“ Svona lýsir Jón Ingvar Kjaran, lektor við Menntavísindasvið HÍ, viðhorfi þátttakenda í rannsókn sem hann vinnur að. Hún snýr að því hvernig karlmenn sem beita ofbeldi í nánum, gagnkynhneigðum samböndum sjá sig og gjörðir sínar. Fyrstu niðurstöður benda til þess að skaðlegar karlmennskuímyndir ýti undir ofbeldi.

„Ég notaði skapið alveg á hana“ 

Jón Ingvar hefur þegar rætt við tíu menn á aldrinum 28 til 50 ára.  Til stendur að ræða við fleiri. Hann flutti fyrirlestur um rannsóknina og fyrstu niðurstöður hennar á Þjóðminjasafninu í dag og vitnaði meðal annars í orð viðmælenda sinna.

„Ég notaði skapið alveg á hana. Var grimmur og urrandi og svona fékk mínu fram þannig,"

sagði einn þeirra.

„Mér fannst þetta fokking viðbjóður en ég réð samt ekkert við mig, ég var edrú í öll skiptin þannig að ekki hef ég það sem afsökun,"

sagði annar.

Telja sig eiga að fá svigrúm

Einn sagðist aldrei hafa litið á sig sem ofbeldismann, „ég leit alltaf á mig sem góðan gæja sem væri til staðar fyrir fólkið sitt." Jón Ingvar segir skaffarahugmyndina enn áberandi í samfélaginu. 

„Það eimir enn eftir af þessari hugmynd í íslensku samfélagi. Nýrri hugmyndir um karlmennskuna, um hinn mjúka karlmann sem sinnir meira börnum og heimilisstörfum og vinnur minna, þær eru líka að koma inn, sérstaklega hjá yngri karlmönnum. Það er einhver gerjun karlmennskuhugmynda. En þeir karlmenn sem ég ræddi við og voru að beita sína nánustu ofbeldi þeir voru mjög meðvitaðir um að þeir þyrftu að skaffa vel og vera fyrirvinnur á heimilinu. Þessi hugmynd líka gaf þeim, þeim fannst eins og þar með hefðu þeir ákveðið svigrúm, það ætti að taka meira tillit til þeirra og þeir ættu ekki skilið að hlusta á eitthvert, innan gæsalappa, tuð frá konunni.“

Sumir mannanna nefndu að vantraust, gagnrýni maka vegna neyslu eða ásakanir maka um að þeir sköffuðu ekki nóg hefðu hleypt í sig illu blóði. Jón Ingvar spyr sig hvort þeir upplifi að makinn hafi með slíkum athugasemdum vegið að heiðri þeirra og karlmennsku. 

Örmagna maður.
 Mynd: Pixabay

Feðraveldið rót vandans

Jón Ingvar telur að feðraveldið og þær karlmennskuhugmyndir sem tilheyra því séu undirrót vandans, ekki sé nóg að líta til einstaklingsbundinna þátta á borð við uppeldi, eða þess hvernig faðir viðkomandi hagaði sér inn á bernskuheimili hans. 

„Þeir töluðu allir um að þeir hefðu mikið skap, margir höfðu verið í neyslu, þegar þú hefur verið í neyslu kemur inn í þetta brostin sjálfsmynd, sumir höfðu upplifað ofbeldi í æsku og svo framvegis þannig að við höfum auðvitað þessar einstaklingsbundnu skýringar en það sem ég er líka að reyna að draga fram í þessari rannsókn er að við þurfum líka að hugsa út fyrir þessar einstaklingsbundnu skýringar og hugsa um þetta út frá kerfinu. Þetta er félagslegt, þetta er kynjað vandamál. Það gleymist stundum þegar maður er að fókusera bara á einstaklingsbundnar skýringar. Þetta tengist stærra vandamáli, þetta tengist kynjakerfinu og feðraveldinu.“

Það verði ákveðin samlegðaráhrif og erfitt að segja til um hvort komi á undan, hænan eða eggið. 

„Við erum með félagslegar aðstæður, kynjað kerfi, valdaójafnvægi milli kynjanna og svo þessa einstaklingsbundnu þætti.“

Hann segir það hafa komið sér á óvart hversu sterkur þáttur feðraveldisins sé. 

„Ég grýtti síma í vegginn, hún braut diska“

Birtingarmyndir ofbeldisins sem mennirnir beittu voru misjafnar. Ofbeldið getur verið andlegt, líkamlegt, kynferðislegt og fjárhagslegt. Þá nefnir hann óskhyggju um að maki láti lífið, til dæmis í slysi. 

 „Ég hef tekið konuna mína, snúið hana niður og tekið hana kverkataki."

„Ef ég fékk ekki að ríða þá setti maður bara af stað eitthvað leikrit þangað til maður fékk það. Ég var alveg svona í þessu andlega ofbeldisdæmi án þess að gera mér nokkra grein fyrir því."

„Við rifumst og ég grýtti síma í vegginn og hún braut diska og ég henti öðrum síma í vegginn og þá skar hún sig."“

Jón Ingvar nefnir til dæmis að andlegt ofbeldi og ofbeldi gagnvart hlutum, það að berja í veggi eða grýta hlutum í gólfið, geti oft verið undanfari líkamlegs ofbeldis. 

„Þetta tengist svo mikið og erfitt að segja hvort andlegt eða líkamlegt ofbeldi er algengara. Andlega ofbeldið var auðvitað svona stöðugra, gegnumgangandi. Þetta líkamlega ofbeldi kom svona inn á milli ef eitthvað sérstakt kom upp á. Maðurinn datt í það eða hafði unnið myrkranna á milli og komið þreyttur heim. Þá þurfti enn minna til að triggera að hann færi að beita líkamlegu ofbeldi.“

Finna sjaldan fyrir skömm

Jón Ingvar segir mennina sjaldnast finna fyrir skömm, það séu einkum þolendur sem finni fyrir skömminni. Þeir sem beiti ofbeldi upplifi frekar eftirsjá. 

„Þeir svona vildu hafa óska þess að aðstæður væri allt aðrar, að þeir hefðu ekki lent í þeim aðstæðum að þurfa að beita ofbeldi.

Brotið gler.
 Mynd: Miguel Saavedra - RGBStock

Sökin einhvers annars

Mennirnir sem Jón Ingvar ræddi við áttu það sameiginlegt að hafa leitað sér aðstoðar sjálfviljugir. Flestir líta á sig sem ofbeldismenn og viðurkenna vandann. Þeir litu líka á sig sem góða og umhyggjusama feður og það var ástæðan fyrir því að þeir ákváðu að fara í meðferð. Fæstir tóku þó á sig sökina. 

„Það sem er svo áhugavert þegar maður tekur viðtöl, hvort sem það er við ofbeldismenn eða aðra, er að þau eru uppfull af þversögnum. Við erum alltaf að búa til okkar sjálf í gegnum viðtalið. Þessir menn sem ég tók viðtöl við afneituðu margir, eða sögðu að sökin lægi ekki beint hjá þeim. Þeir tóku alveg á sig ábyrgð, viðurkenndu verknaðinn en sökin sem slík var einhvers staðar annars staðar. Þeir höfðu átt erfiða æsku, orðið vitni að ofbeldi í æsku, höfðu skap sem þeir gátu ekki tamið og þegar þeir drukku ofan í skapið varð allt vitlaust. Samt sem áður voru þeir farnir að vinna í þessu og voru margir meðvitaðir um að þeir þyrftu að vinna í sínum málum á hverjum einasta degi, bara til að koma í veg fyrir að þeir myndu springa aftur.“ 

Reyndu að fjarlægja sig frá ofbeldinu

Sumir kenndu maka um, sögðu þá hafa beitt sig andlegu ofbeldi.

„Þetta er meingallaðasta kvikindi sem ég hef verið með, hún er búin að gera út af við mig.“

Sagði einn. Annar nefndi æsku sína.

„Ég stóð ekki uppi með neitt, brostna sjálfsmynd, geggjaður í skapinu náttúrulega, alltaf að lenda í árekstrum heima.“

Annar sagðist vera með ofbeldisfulla fortíð.

„Ég trúi því að ég eigi aldrei eftir að meiða konu aftur en á meðan ég get ekki verið sannfærður um að ég eigi ekki eftir að meiða karlmann aftur þá lít ég á mig sem ofbeldismann.“  

Oft reyndu mennirnir að fjarlægja sig frá ofbeldinu, sögðust til dæmis einungis muna glefsur frá því þegar þeir gengu í skrokk á konunni sinni. 

Karlmaðurinn líkamlega sterkari

Það er ákveðin tvíhyggja í umræðunni, talað um gerendur og þolendur. Er hægt að varpa allri ábyrgðinni á annan aðilann? 

„Það þarf ekki alltaf að vera. Stundum eiga báðir aðilar sök á því að sambandið sem slíkt er ofbeldissamband. Í gagnkynhneigðum samböndum, þá eðli málsins samkvæmt er oft annar aðilinn líkamlega sterkari. Það er oftast karlmaðurinn. Þess vegna, þegar allt sýður upp úr og hann fer að beita líkamlegu ofbeldi þá verður það oft mjög gróft. Að því leytinu til má segja að sökin sé alltaf hjá þeim sem meiðir einhvern annan líkamlega, hvort sem makinn hafi á einhvern hátt, innan gæsalappa, triggerað ofbeldið eða ekki.“

Mynd með færslu
Úr miðbæ Reykjavíkur. Myndefnið tengist efni fréttarinnar ekki beint. Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Allar staðalímyndir út um gluggann

Talið er að þriðja hver kona í heiminum verði fyrir ofbeldi af hálfu karlkyns maka, einhvern tímann á lífsleiðinni. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur skráð 1102 heimilisofbeldismál frá því í janúar í fyrra, en þá gerðu borgaryfirvöld og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu samkomulag um nánara samstarf í þessum málaflokki. Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur hjá embættinu, segist hafa hent öllum staðalímyndum um á hvers kyns heimilum heimilisofbeldi ætti sér stað eða við hvaða aðstæður út um gluggann. Þetta tengist ekki stétt.

Toppurinn á stórum ísjaka

Karlarnir sem Jón Ingvar ræddi við eiga það sameiginlegt að hafa sjálfir leitað sér aðstoðar. Hann segir ljóst að þeir séu einungis toppurinn á stórum ísjaka. Hann telur brýnt að efla fræðslu um jafnréttismál í skólum landsins. 

„Fræða ungt fólk um þetta kerfi sem mótar okkur, þessar orðræður um skaðlega karlmennsku og skaðlegan kvenleika. Svo það hafi aðrar leiðir, geti velt fyrir sér öðrum möguleikum. Viti hvað það er að vera í sambandi, hvað heilbrigt samband er, hvar mörkin liggja,“ 

Segir Jón Ingvar. 

epa01664175 An undated handout picture released by the Superior Council of Scientific Investigations (CSIC) showing a huge blue iceberg floating in the Weddell Sea, in Chile, 13 March 2009. The disappearance of 'thousand-year-old' ice from the
 Mynd: EPA - CSIC
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV