Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ofbeldið gerði mig að stríðsmanni“

14.02.2018 - 14:00
Mynd: Ágúst Kristján Steinarrsson / Facebook
„Ofbeldið breytti mér og gerði mig að stríðsmanni, mínum eigin varðmanni,“ segir Ágúst Kristján Steinarsson, stjórnunarráðgjafi og tónlistarmaður. Ágúst stríðir við geðhvörf. Hundrað og tuttugu voru vistaðir á sjúkrahúsi gegn vilja sínum í fyrra og í slíkum tilfellum er valdi beitt. Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna er lagt til að dregið verði úr þvingunum við læknismeðferð.  

Skýrsla sérstaks skýrslugjafa um réttindi hvers manns til þess að njóta bestu mögulegrar líkamlegrar og andlegrar heilsu sem kom út í júní í fyrra hefur vakið athygli. Þar leggur skýrsluhöfundur til að dregið verði úr því með markvissum og raunhæfum hætti að fólk sé þvingað þegar það er í læknismeðferð og að bundinn sé endi á hvers konar þvingun í geðrænni meðferð. Geðhjálp hefur látið þýða skýrsluna og er hægt að nálgast hana bæði á íslensku og ensku á vefnum. 

Haldið niðri og sprautaður niður 

Þegar fólk er vistað á sjúkrahúsi gegn vilja sínum hefur það ekkert um meðferð sína að segja. Ágúst Kristján Steinarsson hefur reynslu af því að vera beittur slíkri valdbeitingu. Hann var greindur með geðhvörf árið 1999 þegar hann var 19 ára. Hann hefur einnig strítt við ristilkrabbamein og sáraristilbólgur en er núna við góða heilsu.

„Valdbeiting getur verið svo rosalega margbreytileg, allt frá því að segja manni að gera eitthvað yfir í það að virkilega beita valdi. Nærtækasta sagan sem ég vísa helst í gerðist fyrir fimm árum. Sutta sagan er að ég gleymdi tösku. Ég var útskrifaður og kem daginn eftir til að sækja töskuna og er svona ginntur inn í samtal við lækni sem ég hafði ekki hitt áður. Áður en ég veit af eru sjö manns búnir að veitast að mér og halda mér niðri með valdi, afklæða mig og sprauta mig. Þeir urðu ekki rólegir fyrr en þeir voru búnir að sprauta mig.“  

Ágúst segir að eftir á að hyggja hafi ekki átt að útskrifa hann því hann hafi ennþá verið í maníu.  

„Ég stóð aftur á móti í þeirri trú að ég ætti ekki að vera þarna inni en þeir túlkuðu mig sem ógn. Þeir töldu að ég væri ógn við sjálfan mig og aðra og þeir voru að búa sig undir það að ég myndi valda usla eða hættu og þeir þyrftu þá að grípa til mjög róttækra aðgerða og það var, að því er virtist, þeim mjög eðlislægt að beita ofbeldi.“

Ágúst streittist á móti. Tveir lögreglumenn komu og stukku á hann, svo aðrir tveir og áfram fjölgaði þeim sem héldu honum niðri. Hann segir að lögreglumennirnir hafi beitt öllum þeim ráðum og kúnstum sem þeir kunnu. 

Stríðsmaður varð til  

Hvaða áhrif hafði þetta á þig? „Þetta breytt mér. Þetta og geðsjúkdómar sem ég hef lent í og dvöl á spítala hafa breytt mér og þessi sérstaki viðburður þarna gerði mig að stríðsmanni, mínum eigin varðmanni. Ég var að passa upp á sjálfan mig. Ég ætlaði ekki að láta brjóta mig niður og það hafði þau áhrif að ég var frekar pirrrandi á geðdeild það sem eftir var þessarar dvalar, þar sem ég var að berjast fyrir mínum rétti og fannst illa farið með mig. Næstu eitt og hálft til tvö árin var ég ekki líkur sjálfum mér. Ég var í þessari andspyrnu. Ég var gegn öllu þessu hefðbundna. Það líklegast leiddi til þess að ég endaði í skilnaði við konuna mína þannig að það var ansi stór atburðarrás sem fylgdi þessu.“

Meiri ást og kærleikur í Danmörku

Ágúst segir að atburðurinn hafi vakið með honum reiði og hann þekkir fleiri sem hafa svipaða sögu að segja um valdbeitingu. Hann hefur líka reynslu af geðsjúkrahúsum í Danmörku og hann segir að þar hafi verið komið fram við hann á allt annan hátt. 

„Það getur vel verið að það hafi verið margt sem spilaði inn í en mín upplifun af dvöl á spítala í Danmörku er gjörólík. Ég upplifði ást og kærleika. Það er stutta svarið. Fyrir vikið læknaðist ég á spítala í stað þess að brotna og verða verri einstaklingur.“

En voru aðstæður svipaðar, var verið að reyna að fá þig til að gera eitthvað á móti þínum vilja? Já, já, ég var sviftur mínu frelsi, ég var ólaður niður í Danmörku, ég var lyfjaður upp og ég var mjög óþekkur, ef svo má segja. Ég var versta útgáfa af sjálfum mér þá. Ég hef aldrei verið jafn veikur og þá. En þau einhvern veginn tækluðu mig öðruvísi. Þannig að þau höfðu bara þolinmæði fyrir þessum sjúkdómi sem ég var glíma við þessa stundina. Þau lögðu ekki dóma á það og tókst einhvern veginn, já… leyfðu þessu að líða hjá.“

Ekki hlúð að starfsfólkinu 

Ágúst segir að það megi vel vera að hann hafi verið á öðrum stað þegar hann var í Danmörku. Hann hafi hins vegar heyrt að sjúkrahúsið sem hann dvaldi á væri það allra besta í landinu.

„Verandi stjórnunarráðgjafi sjálfur, horfandi á vitleysuna sem á sér stað inn á spítulum í rekstri og stjórnun, þá sé ég bara hvað það er vitlaust. Það er ekkert  verið að hlúa að starfsfólkinu. Þetta er rosalega erfitt starf. Ég er rosalega erfiður þegar ég er í maníu og þau þurfa að hugsa vel um sjálf sig og stofnunin þarf að hugsa vel um þau. Þannig að ég myndi segja að þetta sé bara uppsöfnuð kergja og uppsöfnuð menning fyrir því að þetta sé bara í lagi.“

„Heldur þú að það að beita valdi verði til þess að meðferðin virki ekki eins vel? „Ég held að það sé svona hárfín lína. [...] Þetta er bara eitt afmarkað tilfelli, það er ekki hvað er gert heldur hvernig það er gert. Það þarf að hafa vit fyrir okkur oft á tíðum en það er bara spurning hvernig á að gera það. Fyrir mér er það stóra málið. Það á að draga út úr myndinni ofbeldi, fordóma og óþolinmæði. Þetta eru hlutir sem eiga ekki að sjást inni á geðsjúkrahúsi og er ótrúlegt að skuli gerast. Þannig ef það myndi nást út úr jöfnunni þá held ég að valdbeitingin sem slík væri allt í lagi.“

Fordómar inni á geðsjúkrahúsi

Ágúst segir að hann verði oft var við fordóma hjá fagfólki á sjúkrahúsum og sérstaklega hafi hann fundið fyrir þeim þegar hann kom frá Danmörku og var fluttur á geðdeild á Íslandi. Þá hafi hann fundið afgerandi mun. 

„Ég flýg heim undir leiðsögn. Ég er búin að eiga einhverja tíu daga í Danmörku sem voru mjög þægilegir og heilandi. Sá sem fylgir mér heim til Íslands er mjög þægilegur og skemmtilegur maður. Við spjöllum um heima og geima og ég sýni bara á mér eðlilegar, heilbrigðar hliðar.“

Þegar til Íslands er komið er enginn að taka á móti þeim. Þeir fara með rútunni í bæinn og labba frá BSÍ yfir á geðdeildina. Þar bíða þeir líklega í 20 mínútur. 

„Þessi tilsjónarmaður minn hann var mjög hissa yfir þessu öllu saman. Hann hafði aldrei séð svona vinnubrögð áður. En síðan loksins fáum við móttökur. En sá sem tekur á móti mér heldur að ég sé að koma nýr inn á spítalann og ég verð pínu pirraður. Og í fyrsta sinn kom þarna stríðsmaðurinn fram sem ég var búinn að nefna áður. Hann byrjaði að spyrja og ég bara stoppaði hann af og segi að ég sé búinn að vera á spítala í þetta langan tíma í Danmörku og ég sé nú bara á leiðinni heim og við þurfum ekki að fara i gegnum þetta. Hann biður mig að afsaka og sækir yfirlækni. Þar kemur kona sem labbar inn með fordóma í fanginu. Það var svo afgerandi fannst mér. Hún leit bara á mig eins og óþekkan ungling og hún gerði mér grein fyrir því í stuttu máli að ef ég samþykki þetta ekki, að koma inn á spítala og vera undir eftirliti í einhverja daga, þá muni ég vita hverjar afleiðingarnar yrðu. Hún var eiginlega að hóta mér ofbeldi þarna.“

Heldur þú að það þurfi að breyta viðhorfum inni á spítalanum? „Það er kannski kjarni málsins. Þetta er ekki endilega hvað þú gerir heldur hvernig þú gerir það. Og þar á bak við allt saman er bara viðhorf. Einhvern tíma, einhvers staðar bognaði þetta. Þetta þarf að breytast.“

Hnignandi starfsandi

Ágúst tengir þetta við skortinn og álagið á spítalanum. Hann fór á spítala með árs millibili og segir að mikil munur hafi verið á starfsandanum. 

„Ég sá hvernig andinn hafði hnignað á einu ári og ég tengi það meðal annars við það að það varð eitt stórt mjög alvarlegt atvik þarna í millitíðinni sem hefur lagst líklega þungt á fólk. Á þeim tíma taldi ég það vera ástæðuna. Það var alla vega mikill munur á fólkinu á einu ári.“

Oft er talað um að geðheilbrigðismálin hér á landi séu í ólestri, margir á geðlyfjum o.s.frv. Heldur þú að þetta tengist eitthvað? „Stórt er spurt, get ég svarað stórt?  Fyrir mér er þetta spurning um hvernig þú lifir, hversu vel þú lifir. Og geðheilbrigðiskerfið er ekki að fjalla um það. Þau eru bara að fjalla um eldinn sem þau slökkva. Það fjallar ekki um brunarústirnar sem verða eftir brunann. Það fjallar ekki um fyrirbyggjand aðgerðir áður en verður bruni. Þetta er svona klassískt svar. Það þarf að horfa á þetta heildstætt. Hjá mér persónulega hef ég gjörsamlega breytt um lífsstíl, líf og líðan. Þannig að í fjögur og hálft ár hef ég verið laus við veikindi sem er stórkostlegur árangur í mínu tilfelli og ég vil persónulega meina að það sé út af því ég er hættur að treysta bara á slökkviliðið.“

 

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV