Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ofbeldi gegn börnum á átakasvæðum aldrei meira

13.02.2020 - 00:50
epa05896860 Iraqi displaced people from Mosul, who were forced to flee their homes due the fighting between Iraqi forces and Islamic state group (IS), clean some dishes at Hamam al-Alil camp, southern Mosul, north of Iraq, 07 April 2017  (Issued 08 April
Um það bil hálf milljón íbúa Mosúl heldur til í búðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa komið upp í Írak. Mynd: EPA
Líkurnar á að börn sem búa á átakasvæðum séu drepin, limlest eða kynferðislega misnotuð hafa aldrei verið meiri en þær eru nú. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Barnaheilla - Save the Children, sem gefin var út á dögunum.

Skýrslan nefnist Stop the War on Children 2020: Gender Matters og er birt í tengslum við öryggisráðstefnuna sem er haldin í Munchen dagana 14. til 19. febrúar.

Samkvæmt skýrslunni hefur ofbeldi gegn börnum á átakasvæðum aldrei verið meira síðan skráningar hófust. Yfir 400 milljónir barna búa á átakasvæðum, þar af nærri 150 milljónir þar sem mikil átök eru. 

Í skýrslunni kemur fram að stúlkur verða fyrir töluvert meira kynferðisofbeldi á átakasvæðum en drengir. Í nærri níu af hverjum tíu tilvikum sem börn voru beitt kynferðisofbeldi var það gegn stúlkum, en aðeins 1,5% af skráðum tilfellum voru gegn drengjum. Í 11% tilvika var kyn ekki skráð. Sómalía og Lýðveldið Kongó eru hættulegustu svæðin fyrir stúlkur. Drengir eru svo mun líklegri til að verða drepir eða limlestir á átakasvæðum. Fjöldi barna sem eru drepin eða særð hækkar á hverju ári. 

„Ótrúlegt að heimurinn standi hjá“

Í fréttatilkynningu Barnaheilla - Save the Children segir að samtökin telji einu leiðina til að stöðva stríð gegn börnum sé að ríkisstjórinir og aðrir hrindi í framkvæmd aðgerðaáætlunum til að takast á við þjáningar barna. Einnig er talið nauðsynlegt að framlög til að binda enda á þjáningar barna verði aukin. Haft er eftir Inger Ashing, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka Save the Children, að skýrslan sýni að stríð og átök séu að verða hættulegri börnum. „Það er ótrúlegt að heimurinn standi hjá á meðan börnum er ógnað. Síðan 2005 hafa að minnsta kosti 95 þúsund börn verið drepin, tugþúsundum barna rænt og milljónum barna verið neitað um aðgengi að menntun eða heilbrigðisþjónustu,“ segir Ashing.