Ofát er matarsóun

Mynd: - / shutterstock

Ofát er matarsóun

16.12.2016 - 10:15

Höfundar

„Um leið og át breytist í ofát verður það nefnilega álitamál hvar mörkin liggja á milli ruslatunnunnar og eigin líkama," segir Stefán Gíslason í jóla-umhverfispistli sínum í Samfélaginu á Rás 1, þar sem hann fjallar einnig um umhverfisvæn kerti og jólatré.

Stefán Gíslason skrifar:

Pistill dagsins er jólapistill. Fyrir því eru einkum tvær ástæður. Annars vegar eru jólin alveg að koma og hins vegar eru jólapistlaskrif álíka fastur liður í aðventunni minni eins og alls konar jólagjafa- eða leynivinaleikir eru fastur liður í aðventu einhverra annarra.

Árlegum jólapistlum fylgir hætta á endurtekningum, þ.e.a.s. að innihald hvers pistils verði alveg eins og innihald pistilsins árið á undan. En sem betur fer þróast samfélagið ár frá ári og samhliða því þróast áherslurnar í samfélaginu. Svo er líka alveg hugsanlegt að hluti af boðskapnum gleymist á milli ára. Kannski þykja endurtekningar líka bara ágætar. Ég held til dæmis að prestar noti næstum alltaf sama jólaguðspjallið.

Kjöt ekki eins vinsælt um hátíðar

Áður en ég helli mér út í markvissar endurtekningar á jólapistli síðasta árs þykir mér ekki úr vegi að huga að áherslum pistlahöfunda og vefsíðuskrifara í nágrannalöndunum, því að þar leynast oft vísbendingar um strauma og stefnur sem eiga eftir að berast hingað. Það fyrsta sem vakti eftirtekt mína í þeirri heimildaleit var áherslan á minnkandi hlut kjöts í jólamáltíðunum. Dæmi um þetta eru ráðleggingar sænska umhverfisfræðslusetursins Ekocentrum í Gautaborg, en þar er fólki m.a. ráðlagt að hafa jólaborðið litríkt með því að setja fyrst á það græna meðlætið og bæta svo kjöti eða fiski við á minni matarfötum sem síðan er fyllt á eftir þörfum. Eitt af því besta sem við getum gert fyrir jörðina er nefnilega að njóta þess græna. Stór hluti af vistspori venjulegs heimilis liggur í matnum sem við borðum og með því einu að draga úr kjötneyslu og borða meira af jurtafæði getum við minnkað þetta vistspor verulega.

Fyrst ég er byrjaður að tala um mat er óhjákvæmilegt að tala um matarsóun. Það skiptir nefnilega ekki bara máli í umhverfislegu tilliti hvað við borðum, heldur líka hvað við borðum ekki. Hver einasti æti matarbiti sem fer forgörðum stækkar vistsporið okkar að óþörfu. Matarbiti sem fer í ruslið er ekki bara rusl, heldur þurfti líka helling af auðlindum til að búa þennan matarbita til, svo sem áburð, orku og vatn sem vel hefði mátt nota í eitthvað annað. Og svo kostar líka peninga að kaupa mat sem er hent og peninga höfum við alla fengið í skiptum fyrir tíma sem hefði líka vel mátt nota í eitthvað annað.

Borða minna og nýta afganga

Og fyrst ég er byrjaður að tala um matarsóun, þá er líka allt í lagi að hafa það hugfast um jólin að ofát er í raun og veru líka matarsóun. Um leið og át breytist í ofát verður það nefnilega álitamál hvar mörkin liggja á milli ruslatunnunnar og eigin líkama.

Ef við veljum mat sem hefur sem minnst áhrif á umhverfið, borðum ekki nema hæfilega mikið af honum og nýtum alla afganga sem til falla græðum við þrennt: Betri jörð, betri fjárhag og betri heilsu. Sumir myndu kannski bæta betri samvisku við þennan lista, en sennilega er samviskan einhvern veginn innifalin í heilsunni. Gott ráð til að forðast slæma samvisku er reyndar að forðast allt það sem getur valdið henni.

Svo við höldum okkur enn við jólamatinn, þá gefa nýleg dæmi okkur ágætt tilefni til að vera gagnrýnin þegar við veljum hráefnið í þessar mikilvægu máltíðir. Þetta felur í sér að vera gagnrýninn á þær upplýsingar sem fylgja hráefninu, láta sig skipta máli hvaðan það kemur, hvernig var staðið að framleiðslunni o.s.frv. Í þeirri viðleitni kemur lífræn vottun matvæla í góðar þarfir.

Val á jólatrjám og kertum

Eitt af því sem gjarnan ber á góma á þessum árstíma eru jólatré og þá m.a. hvaða jólatré séu best frá umhverfislegu sjónarmiði. Svarið við því er nokkuð einfalt. Lifandi íslensk tré eru best. Sumir halda því reyndar fram að gervijólatré séu enn betri, af því að þau sé hægt að nota aftur og aftur. Vissulega eru gervijólatrén margnota en líklega þarf að nota þau í 20 ár eða þar um bil til að vinna upp það sem tapaðist við framleiðslu þeirra, þar sem m.a var notuð olía, bæði sem hráefni og orkugjafi. Þeir sem eru hins vegar þegar búnir að kaupa slíkt tré ættu endilega að nota það sem lengst og fresta öðrum jólatrjáakaupum á meðan. Sama gildir reyndar um flest annað sem við eigum. Fyrst við eigum það á annað borð er best að nota það sem lengst og kaupa ekki nýtt í staðinn fyrr en í fulla hnefana. Af gefnu tilefni skal þó tekið fram að þetta á ekki við um bíla. Gamlir bílar eru að meðaltali eyðslufrekari og þar með verri fyrir umhverfið en nýrri bílar. Umhverfisskaðsemi bíla liggur fyrst og fremst í notkuninni, öfugt við gervijólatrén þar sem framleiðslan er svartasti hluti ævisögunnar.

Kertaljós eru mikilvægur hluti af jólahaldinu og þá skiptir máli að velja kerti sem fara sem best með umhverfi og heilsu. Einfaldasta leiðin til að velja réttu kertin hvað þetta varðar er að kaupa Svansmerkt kerti, þ.e.a.s. kerti sem bera norræna umhverfismerkið Svaninn. Slík kerti fást í mörgum verslunum og myndu eflaust fást í öllum þeim verslunum sem á annað borð selja kerti ef viðskiptavinirnir myndu gera kröfu um það. Til þess að merkja megi kerti með Svaninunum þurfa a.m.k. 90% hráefnanna að vera endurnýjanleg, sem þýðir að olíukerti, sem ég kýs að kalla svo, fást ekki vottuð. Með olíukertum á ég við kerti úr parafíni, sem er dæmigerð olíuafurð og er líklega enn sem komið er algengasta hráefnið í kertum í íslenskum búðarhillum. Með því að kaupa Svansmerkt kerti getur maður líka verið viss um að ekki hafi verið notuð pálmaolía í framleiðsluna, auk þess sem ilmefni eru ekki leyfð, enda geta þau verið ofnæmisvaldandi. Nokkur önnur óholl og mengandi efni eru líka á bannlista, og eins eru gerðar kröfur um hámarks sótmengun. Svansmerkt kerti eru alla jafna gerð úr stearíni, sem er endurnýjanleg dýrafita. Stearínkerti eru þeim eiginleikum gædd að þau ósa ekki, sóta ekki, renna ekki niður og bogna ekki. Þarna, sem víðar, fara saman hagsmunir umhverfis og heilsu, því að kertareykur frá olíukertum hefur einkar slæm áhrif á heilnæmi inniloftsins sem við öndum að okkur um jólin.

Jólavinaleikir og sóun

Í upphafi þessa pistils var minnst á jólagjafa- eða leynivinaleiki sem væru orðnir fastur liður í aðventu margra. Þetta er að mörgu leyti skemmtilegur fastur liður, en honum fylgir sú hætta að fólk sitji uppi með dót sem það fékk í leynivinagjöf og hefur bókstaflega ekkert með að gera. Þetta dót kostaði sjálfsagt litla peninga, enda er hámarksupphæðin iðulega tilgreind í leikreglunum. En áhrif dótsins á umhverfið eru ekkert endilega í réttu hlutfalli við verðið. Það sama á við um jólagjafir. Þar gildir sú einfalda regla að dót sem maður hefur ekkert gagn af gerir ógagn. Þeir sem enn eiga eftir að kaupa einhverjar jólagjafir gætu haft þetta í huga og reynt að velja eitthvað gagnlegt til að auðlindum jarðar sé ekki sóað í tilgangsleysi.