Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Of löng bið eftir skattalækkunum

07.09.2019 - 18:53
Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson / RÚV
Hagfræðingur ASÍ segir tekjulægstu hópana í þjóðfélaginu ekki hafa tíma til að bíða eftir að skattalækkanir í tengslum við kjarasamninga í apríl skili sér. Stærstur hluti boðaðra tekjuskattsbreytinga skili sér á þarnæsta ári en ekki því næsta. 

Svokallaðir lífskjarasamningar voru undirritaðir í vor og aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð þeirra voru umfangsmiklar og munaði mestu um upptöku þriggja þrepa tekjuskattskerfis. Útfærsluna kynnti svo fjármálaráðherra í gær þegar fjárlagafrumvarpið var birt. 

„Það er verið að leggja þar til lækkun á tekjuskatti einstaklinga um 21 milljarð. Þannig að heimilin munu auðvitað finna fyrir því,“ segir Henný Hinz hagfræðingur ASÍ. 

Næstu daga ætlar ASÍ að leggja sjálfstætt mat á bein áhrif lækkananna á mismunandi tekjuhópa. ASÍ leggur áherslu á að breytingarnar skili sér til lág- og millitekjufólks. 

„Þessir hópar, skattbyrði þeirra hefur aukist mikið á síðustu árum og nú er að okkar mati kominn tími til þess að þessir hópar njóti þessara breytinga.“

Breytingarnar eiga að auka ráðstöfunartekjur heimilanna um 21 milljarð króna. Þar er átt við samtals á næsta og þarnæsta ári. Þeir sem eru með 325 til 600 þúsund krónur í mánaðarlaun fá 70 til 120 þúsund í auknar ráðstöfunartekjur á ári. 

„Það er gert ráð fyrir að 1/3 af breytingunni skili sér á árinu 2020 en stærsti hlutinn, sem sagt 2/3, komi til framkvæmda á árinu 2021. Og við höfum lagt á það áherslu að okkur þyki þetta alltof langur innleiðingartími. Þarna er verið að horfa til skattalækkana á tekjulægstu hópana í samfélaginu. Og þeir hafa einfaldlega ekki tíma til þess að bíða lengur eftir þessari breytingu. Við höfum nú þegar beðið frá því kjarasamningar voru undirritaðir í apríl á þessu ári með að sjá útfærsluna á þessu og teljum að nú sé kominn tími til að þetta skili sér í vasann hjá launafólki.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV