Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Of lítið fyrir fátæka í meirihlutasamningi

13.06.2018 - 12:40
Mynd með færslu
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Borgarfulltrúi Sósíalista segir málefnasamning nýs meirihluta í Reykjavík ekki boða neinar aðgerðir til að bæta lífskjör hinna verst settu. Yfirlýsing um að fjölga félagslegum íbúðum um 500 á kjörtímabilinu sé í raun yfirlýsing um áframhaldandi húsnæðiskreppu fyrir hina verst settu. 

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista, bendir á að um 960 fjölskyldur séu á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík.

Þá gagnrýna Sósíalistar að niðurfelling strætófargjalda barna yngri en tólf ára miðist við börn sem ferðast í fylgd með fullorðnum. „Hvernig eiga fátækar fjölskyldur að nýta sér þetta?“ spyr Daníel Örn Arnarsson varaborgarfulltrúi. „Á einstæða móðirin í láglaunastarfinu að taka sér frí til að geta ferðast með barninu sínu eftir skóla í tómstundir eða í pössun til afa og ömmu? Svo strætó fái fullt fargjald frá henni frekar en hálft frá barninu?“

Þá telja þau ekki rétt að lækkun skólagjalda eigi aðeins við um foreldra sem eiga fleiri en eitt barn í skóla. Fjölmörg dæmi séu um fátæka sem eigi aðeins eitt barn, og þessar tillögur gagnist þeim ekki.

„Meirihlutasáttmálinn er fráleit niðurstaða þess sem flokkarnir sögðu og héldu fram í kosningabaráttunni, sem á endanum snerist að miklu leyti um húsnæðiskreppuna, láglaunastefnuna og önnur hagsmunamál hinna verra settu,“ segir Sanna Magdalena um meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vg. „Þessi sáttmáli boðar engar aðgerðir sem máli skipta til að bæta lífskjör láglaunafólks og annarra fátækra. Þeir brauðmolar sem þau fá eru bæði fáir og smáir.“