Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óeirðir halda áfram í Indónesíu

23.05.2019 - 04:49
Mynd: EPA-EFE / EPA
Tugþúsundir hermanna voru kallaðar út til aðstoðar lögreglu í Jakarta, höfuðborg Indónesíu, í nótt þar sem miklar óeirðir hafa verið eftir að úrslit forsetakosninganna í landinu voru birt. Stuðningsmenn Prabowo Subianto, sem laut í lægra haldi í kosningunum, hafa tekist á við lögreglu í borginni. Sex hafa látið lífið í átökunum, hundruð slasast, og samkvæmt heimildum Al Jazeera hafa vel á þriðja hundrað manns verið handteknir.

Prabowo grunar yfirvöld um stórfellt kosningasvindl sem leiddi til endurkjörs Joko Widodo. Hann hefur tíma til morguns til þess að kæra kosningaúrslitin. Sjálfur hefur Prabowo kallað eftir því að stuðningsmenn hans rói sig niður og bíði niðurstöðu dómstóla eftir að hann hefur kært kosningarnar. 

Yfirvöld vilja meina að mótmælendurnir séu flestir aðkomumenn. Al Jazeera hefur eftir Argo Yuwono, talsmanni lögreglunnar í Jakarta, að grunaðir hafi viðurkennt við yfirheyrslur að mótmælin hafi verið skipulögð og þeir hafi fengið borgað fyrir þau. Lögregla leiti nú skipuleggjanda mótmælanna og hver hafi greitt fólkinu fyrir að mæta.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV