Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óeðlileg upplýsingagjöf í Aurum-máli

19.05.2014 - 23:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Ásgeir Jóhannesson fékk á sínum upplýsingar um fjárhagsstöðu viðskiptavinar Glitnis frá bankanum. Jón Ásgeir var hluthafi í Glitni, en gegndi engum störfum eða embættum í bankanum.

Þetta kom fram í málflutningi Aurum málsins svokallaða, sem lauk fyrir helgi. Það snýst um 6 milljarða króna lán sem tekið var hjá Glitni til að fjármagna kaup dótturfélags Fons á hlutabréfum Fons í Aurum Holding árið 2008.

Þrír stjórnendur Glitnis eru ákærðir í málinu, sem og Jón Ásgeir Jóhannesson sem er sakaður um að hafa í krafti áhrifa sinna sem hluthafi í banknum, þrýst á og beitt fortölum til að lánið yrði veitt.

Fram kom í málflutningnum að viðskiptastjóri bankans, sem er ákærður í málinu, sendi Jóni Ásgeiri upplýsingar um tapstöðu Fons í markaðviðskiptum í tölvupósti í júní árið 2008, en Fons hafði tapað miklum fjármunum vegna framvirkra samninga.

Pálmi Haraldsson eigandi Fons sagði fyrir dómi í síðustu viku að Jón Ásgeir hafi hvorki haft umboð til að fara með málefni Fons í bankanunm né að fá sendar upplýsingar um stöðu félagsins hjá Glitni. Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að lán til Fons snarhækkuðu eftir að Jón Ásgeir náði meirihluta í Glitni í apríl 2007.