OECD leggur til veggjöld og sölu bankanna

16.09.2019 - 18:51
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Selja þarf bankana, taka upp veggjöld og efla læsi að mati OECD. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir að nú sé tími til að huga að innviðum eins og vegakerfinu.

Ángel Gurría framkvæmdastjóri efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD kynnti í dag skýrslu um efnahagsmál á Íslandi, sem er gerð á tveggja ára fresti. Stofnunin spáir 0,2 prósenta hagvexti á þessu ári og 2,2 á því næsta. 

Helstu tillögur OECD að umbótum lúta að menntamálum og ríkisrekstri. „Það má alveg klappa ykkur dálítið á bakið og hrósa ykkur en nú þarf að vinna í erfiðu málunum, til dæmis að auka framleiðni. Og einnig hvort innviðirnir verði endurnýjaðir,“ segir Ángel Gurría, framkvæmdastjóri OECD.

Sérstaklega er talað um að efla þurfi menntun. Bæta þurfi íslenskukennslu, læsi og einfalda umgjörð verknáms. „Það sem brýnast er að huga að því að efla allt sem tengist lestri. Og svo er annað sem kemur fram þarna og það er auðvitað starfsumhverfi kennara,“ segir Lilja.

Nú eru flestar tillögurnar sem snúa að menntamálum - erum við að dragast aftur úr? „Við höfum verið að dragast aftur úr í PISA-könnuninni. Við getum gert betur. Ég er sannfærð um það, við höfum verið að ráðast í aðgerðir hvað það varðar,“ segir hún jafnframt.

OECD segir að fjárfesta þurfi meira í vegum, og mælt er með veggjöldum. Gurría segir að nú sé góður tími fyrir stjórnvöld til að hugsa um stefnu í ferðamannaiðnaði. „Að taka á móti fleiri en tveimur milljónum gesta á ári krefst annars konar innviða. Þið þurfið einnig að jafna ykkur á slysum sem orðið hafa, eins og til dæmis gjaldþroti WOW air,“ segir Gurría.

Þá telur stofnunin að samkeppnishæfni landsins sé að versna. Einfalda ætti rekstrarumhverfi fyrirtækja, sérstaklega í þjónustu- og flutningsgreinum og draga úr hindrunum fyrir beina erlenda fjárfestingu. Stofnunin hvetur ríkið til að selja bankana til að tryggja aðskilnað rekstrar og eftirlits í fjármálakerfinu. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi