Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ódýrari gervihnattarfótbolti

04.10.2011 - 11:24
Rándýr áskrift að íþróttastöðvum ætti að vera fyrir bí, miðað við niðurstöðu dómstóls Evrópusambandsins í gær. Hann úrskurðaði að borgarar innan sambandsins mættu kaupa sér áskrift hvar sem er - væntanlega þá ódýrustu - en væru ekki bundnir við sjónvarpsstöðvar í heimalöndum sínum.

Karen Murphy, kráareigandi í Portsmouth á Englandi, vill gjarnan sýna knattspyrnuleiki á skjám krárinnar sinnar, en fyrir átta árum þótti henni áskriftin að bresku íþróttastöðinni Sky Sports vera orðin ansi dýr. Hún sagði því áskriftinni upp og náði sér í grískan gervihnattarlykil í staðinn. Kráargestir fylgdust áfram með enska boltanum, en í gegnum grísku íþróttarásina NOVA, sem er mun ódýrari en Sky.

Þá fékk Karen sekt fyrir að nota erlendan gervihnattarlykil, en hún gafst ekki upp heldur höfðaði mál. Dómstóll Evrópusambandsins hefur nú komist að þeirri niðurstöðu, að Karen megi kaupa áskrift þar sem hún vill í Evrópu. Rök ríkja, sem reyni að banna slíkt, haldi ekki. Bannið brjóti í bága við frelsið til að selja þjónustu sína hvar sem er í Evrópu og ekki sé nóg að vísa til höfundarréttar eða tilrauna til að fá almenning frekar til að mæta á völlinn.

Niðurstaða dómstólsins þýðir, að knattspyrnuáhugamenn í Evrópu geta keypt sér sjónvarpsáskrift frá þeim fyrirtækjum sem þeir vilja eiga viðskipti við - væntanlega þau sem bjóða ódýrustu áskriftina. Þetta gæti sett evrópskan knattspyrnuheim í uppnám, en sjónvarpsfyrirtæki greiða himinháar upphæðir fyrir útsendingarréttinn. Það gæti nú breyst snarlega.

Samkeppni verður nú á markaði þar sem einokun var í raun við lýði. Þótt dómstóll Evrópusambandsins hafi ekki lögsögu hér á landi tekur EFTA-dómstóllinn mið af niðurstöðum dómstóls Evrópusambandsins og því næsta víst að niðurstaðan gildi líka fyrir Ísland.