Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Obrador segir Morales „fórnarlamb valdaráns“

02.12.2019 - 05:40
epa08038468 President of Mexico Andres Manuel Lopez Obrador and his wife Beatriz Gutierrez Muller address the public during the presentation of the First Government Report in the Zocalo of Mexico City, Mexico, 01 December 2019.  EPA-EFE/MARIO GUZMAN
Tugir þúsunda fögnuðu með forsetanum ári eftir að hann tók við embætti Mynd: EPA-EFE - EFE
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkós, sagði í gær að Evo Morales, fyrrverandi forseti Bólivíu, væri „fórnarlamb valdaráns." Forsetinn ávarpaði stuðningsfólk sitt í höfuðborginni í gær og fór þar meðal annars yfir þá ákvörðun sína og ríkisstjórnarinnar að veita Morales pólitískt hæli eftir að hann hrökklaðist úr embætti.

„Evo var fórnarlamb valdaráns," sagði Obrador, „Og við sendum heiminum þessi skilaboð héðan frá Mexíkó: Já við lýðræði, nei við hernaðarhyggju!" Ávarpið flutti Obrador í tilefni þess að ár er nú liðið frá embættistöku hans, en þetta var í fyrsta sinn sem hann tjáði sig opinberlega um aðdraganda þess að Morales neyddist til að flýja land.

Forsetakosningar fóru fram í Bólivíu 20. október. Lengi framan af var allt útlit fyrir að Morales tækist ekki að sigra strax í fyrri umferð kosninganna, eins og hann gerði í þrennum kosningum þar á undan, heldur yrði hann að etja kappi við Carlos Mesa í annarri umferð. Eftir sólarhringslanga og óútskýrða töf á talningu atkvæða birti kjörstjórn svo nýjar tölur. Samkvæmt þeim hafði forskot Moralesar skyndilega aukist mjög mikið og var hann lýstur rétt kjörinn forseti litlu seinna.

Grunsemdir vöknuðu um að brögð væru í tafli, jafnt innan lands sem utan, og mótmæli og óeirðir brutust út í Bólivíu í framhaldinu. Þremur vikum síðar, 10. nóvember, sá Morales sér ekki annan kost en að segja af sér og flýja land, eftir að bæði lögregla og her landsins sögðust ekki geta heitið honum stuðningi sínum og hollustu lengur. Sagðist hann þá sjálfur vera fórnarlamb valdaráns.

Utanríkisráðherra Mexíkós, Marcelo Ebrard, tók á móti Bólivíuforseta við komuna til landsins, en þeir Morales og Obrador hafa enn ekki hist, segir í frétt AFP.