Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

ÖBÍ höfðar mál vegna fyrningarreglna bóta

16.09.2019 - 17:00
Mynd: rúv / rúv
Tryggingastofnun hefur þegar greidd um 200 öryrkjum leiðréttar bætur vegna endurútreikninga á búsetuhlutfalli. Umboðsmaður Alþingis komast að þeirri niðurstöðu í fyrra að útreikningar stofnunarinnar ættu ekki stoð í lögum. Öryrkjabandalagið sættir sig ekki við að miðað sé við að kröfur fyrnist á fjórum árum. Á næstu vikum verður höfðað mál á hendur ríkinu þar sem þess verður krafist að fresturinn verði 10 ár.

Málið snýst um öryrkja sem hafa búið á Íslandi og jafnframt í öðru eða öðrum löndum á evrópska efnahagssvæðinu, EES. Þegar sótt var um bætur hér miðuðust þær við ákveðið búsetuhlutfall. Til að fá fullar bætur hér á landi þurftu umsækjendur að sýna fram á 40 ára samanlagða búsetu fram til 67 ára aldurs.

Flóknar reglur

Í Speglinum í fyrra var tekið dæmi um útreikingana. Það var um mann sem hefur búið í 10 ár í Danmörku, flytur heim og verður öryrki eftir 10 ára búsetu á Íslandi. Hann er þá 36 ára og á 31 ár í 67 ára aldur. Hann næði því 41 árs búsetuhlutfalli og ætti að fá fullar bætur að mati Öryrkjabandalagsins. Hann fær hins vegar aðeins 63% bætur. Reiknireglan er sú að vegna 10 ára búsetu í Danmörku eða öðru landi í EES og 10 ára búsetu á Íslandi er búsetuhlutfallið metið 63% til frambúðar. Hann á sem sagt rétt á rúmlega hálfum bótum vegna þessa 10 ára í Danmörku. Kannski flókið en svona voru reiknireglurnar. Þær miðuðust við að þessi  tiltekni maður ætti líka rétt á bótum frá Danmörku. Þar hefur kerfinu verið breytt og ekki eru í boði bætur þaðan í þessu tilviki.

Fyrnist á fjórum árum

Mál Jóhönnu Þorsteinsdóttur var rakið í Speglinum. Í stuttu máli átti hún einungis rétt á um 20% bótum hér heima vegna búsetu í Danmörku, Svo lágar bætur hrökkva skammt fyrir framfærslu. Hún fór með mál sitt til umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að reiknireglur TR ættu ekki við lagaleg rök að styðjast. Umboðsmaður birti álit sitt í júní í fyrra. Það þýddi að Tryggingastofnun varð að endurreikna allar bætur sem höfðu skerst vegna útreikninga á búsetuhlutfallinu. Fljótlega kom í ljós að það væri talsvert flókið meðal annars vegna þess að leita þurfti upplýsinga í öðrum löndum um hugsanlegar greiðslur þaðan. Ráðuneytið ákvað að miðað yrði við endurgreiðslur fjögur ár aftur í tímann eða að miðað yrði við að fyrningarfresturinn yrði fjögur ár. Útreikningar bentu til þess að öryrkjar ættu rétt á um 500 milljónum hvert ár eða um tveimur milljörðum króna.

Nær til yfir þúsund manns

Í vor kynnti Tryggingastofnun áætlun um endurgreiðslur þar sem öryrkjum var skipt í fjóra hópa sem miðast við í hvaða stöðu þeir voru þegar kom að búsetu.

A) Einstaklingur hefur sótt um hjá TR en fengið synjun frá öðru EES/EFTA landi (fyrsta mat á Íslandi). Afgreiðslutímabil er frá 1. maí - 30. júní 2019. Í þessum hópi eru um 200 manns
 
B) Einstaklingur hefur ekki sótt um greiðslur frá öðru EES/EFTA landi. Afgreiðslutímabil er frá 1. ágúst 2019. Um 360 manns.
 
C) Einstaklingur sem er með réttindi/greiðslur frá öðru EES/EFTA landi. Vinnsla mála hefst í nóvember 2019. Um 160 manns.
 
D) Einstaklingur búsettur í öðru EES/EFTA landi og á réttindi hjá TR.  Vinnsla mála hefst í mars 2020. Um 350 manns.

Alls eru þetta rösklega þúsund manns. TR hefur lokið útreikningum vegna fyrsta hópsins. Ekki liggja enn fyrir tölur um hve mikið sá hópur fékk samanlagt vegna leiðréttingarinnar. Verið er að reikna út flokk B og samkvæmt aðgerðaráætluninni á að byrja að reikna út þriðja hópinn í nóvember. Vinnsla vegna fjórða hópsins hefst hins vegar ekki fyrr en í mars á næsta ári. Þá eru liðin nærri tvö ár frá áliti umboðsmanns Alþingis. Öryrkjabandalaginu finnst þetta of langur tími ekki síst vegna þess að á meðan niðurstöður dragast eru öryrkjar sem hugsanlega eiga rétt á greiðslum áfram á skertum bótum.

Á endurgreiðslurnar frá TR leggjast 5,5% vextir sem eru í samræmi við fyrri vinnureglur stofnunarinnar þegar bætur eru endurgreiddar eða leiðréttar.

Málshöfðun á næstu dögum

Jóhanna Þorsteinsdóttir sem hratt þessari skriðu af stað var í A flokknum og hefur því fengið leiðréttingu. Hún var úrskurðuð með um 20 prósenta rétt en leiðréttingin leiddi til 100% eða fullra bóta. Mál hennar nær aftur til ársins 2010. Fjögurra ára fyrningarreglan þýðir að hún fær engar bætur fyrir árið 2014. Hún er ósátt við það.

Í stað þess að hún og jafnvel einhverjir fleiri höfði mál gegn ríkinu hefur Öryrkjabandalagið ákveðið að höfða mál fyrir hönd allra þeirra sem fengu skertar bætur vegna búsetuhlutfallsins. Samkvæmt upplýsingum Spegilsins er búist við að málshöfðun verði í loka þessa mánaðar eða byrjun þess næsta. Málið snýst um háar upphæðir. Ráðuneytið áætlaði að heildargreiðslur geti numið um tveimur milljörðum króna með hliðsjón af fjögurra ára fyrningu. Öryrkjabandalagið bendir á að til séu ýmsar reglur um fyrningu og að í þessu tilfelli sé rétt að miða við að minnsta kosti 10 ár. Verði fallist á það gætu heildargreiðslur numið um fimm milljörðum króna.