Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óánægðir með að Strætó semji við sömu eigendur

06.11.2018 - 22:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nokkrir bílstjórar, sem vinna sem verktakar hjá Strætó, eru afar óánægðir með að Strætó samþykkti að framselja samning við gjaldþrota fyrirtæki vegna aksturs fyrir fatlaða. Kennitöluflakk segir einn þeirra. Lögmaður þeirra hefur farið fram á skaðabætur. 

Fyrirtækið Prime Tours ehf. var verktaki hjá Strætó í akstursþjónustu fatlaðra en var úrskurðað gjaldþrota um miðjan október. Skiptastjóri þrotabúsins óskaði eftir samþykki Strætós á því að rammasamningur fyrirtækisins við Strætó yrði framseldur til Far-vel ehf. Á það féllst Strætó eftir að hafa fengið álit hjá Innkaupadeild Reykjavíkurborgar á þessum aðilaskiptum á rammasamningnum. 

„Óánægja okkar helst snýr að því að taka þá inn aftur eftir gjaldþrot þar sem að þeir hafa skilið eftir sviðna jörð í raun. Þeir eru síðan góðkenndir af lögfræðingi Strætó og sagt bara að þetta sé allt í lagi. Þeir geta komið inn með nýja kennitölu, sami eigandi, sami stjórnarformaður, sömu bílstjórar, sömu bílar, ég meina hvað er þetta annað en kennitöluflakk,“ segir Andrés Eyberg Magnússon bílstjóri fulltrúi óánægðra undiverktaka hjá Strætó.

Rétt er að taka fram að Innkaupadeild Reykjavíkurborgar segir að í áliti sínu að Far-vel hafi sýnt fram að það upfylli allar ófrávíkjanlegar hæfiskröfur í rammasamningsskilmálunum og að ekki séu uppfyllt skilyrði til að hafna umsókninni á grundvelli könnunar á viðskiptasögu eigenda og stjórnenda. 

Andrés og nokkrir aðrir undirverktakar hjá Strætó unnu árið 2015 að hluta mál fyrir kærunefnd útboðsmála vegna sama rammasamnings en þá var hann framseldur frá Kynnisferðum til fyrirtækisins Ný-tækni ehf. sem síðar varð Prime Tours. Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að Strætó væri skaðabótaskyldur vegna þessa. 

„Frá 2015 er það okkur í hag og sem sé matsmaður tilnefndur af héraðsdómi er að vinna í því máli.“

Þið krefjist skaðabóta?

„Já, við komum til með að gera það í öllu falli. Við vitum bara ekki hversu mikið,“ segir Andrés. 

Í bréfi lögmanns undirverktakanna, sem sent var Strætó í gær, segir að augljóslega sé ekki hægt að bæta úr ólöglegu framsali og skaðabótaskyldu með því að framselja hinn framselda samning aftur. Þessir undirverktakar eru: All Iceland Tours ehf., Björn Páll Angantýsson, Efstihóll ehf., Erla K. Harðardóttir og Ferðaglaður ehf. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Andrés Eyberg Magnússon