Nýttu þér dauðann eins og þú nýtir lífið

Mynd: RÚV / RÚV

Nýttu þér dauðann eins og þú nýtir lífið

08.01.2018 - 10:19

Höfundar

Sumarið 1996 tók Sindri Freysson viðtal við rokkgoðið David Bowie á hótelherbergi í New York fyrir Morgunblaðið. Honum var úthlutað 15 mínútum til viðtalsins en það endaði í hálftíma og hefur Sindri nú gert útvarpsþátt úr viðtalinu.

Í viðtalinu ræddi Bowie meðal annars plötuna Outside sem þá var nýkomin út, listrænar limlestingar, kaþólska sektarkennd og mögulegt völundarhús á einangraðri eyðieyju við strönd Skotlands, völundarhús sem myndi geyma nútíma Mínotáros fljótandi í formalíni og saumaðan saman úr líkama aðdáanda breska myndlistarmannsins Damiens Hirst og nauts.

Sindri mætti galvaskur á hótelherbergið þar sem honum hafði verið úthlutað 15 mínútur með Bowie sem breyttust í þrjátíu. Hann fór með tvo diktafóna ef ske kynni að annar þeirra bilaði og Bowie veitti því eftirtekt, sagðist skilja þetta vel því sjálfur hafi hann lent í vandræðum þegar hann var yngri að taka viðtal. „Ég ætla ekki að segja þér hver viðmælandinn var. En það var ekki Elvis. Þrjátíu mínútur inn í viðtalið fattaði ég að ég hafði gleymt að kveikja á míkrafóninum, en ég skammaðist mín svo mikið að ég þorði ekki að viðurkenna það og kveikti bara á honum og hélt áfram með viðtalið.“

Sindri hittir Bowie á tímamótum í lífi hans. Outside er upprisuplata, skær ljóssúla eftir áratug af daufum luktum og hvarflandi vasaljósum. Daginn eftir að David Bowie lést sagði Brian Eno upptökustjóri að um það bil ári áður hefðu þeir félagar rætt Outside, seinustu plötuna sem þeir unnu að saman. „Við vorum báðir mjög hrifnir af þeirri plötu og fannst hún hafa fallið á milli skips og bryggju,“ rifjaði Eno upp. „Við töluðum um að vitja hennar aftur og færa efnið á nýjar slóðir.“

Einn mikill hæfileiki Bowies, sem hann á sameiginlegan með til dæmis Björk og Kanye West, er óaðfinnanlegur smekkur á samstarfsfólki. Þannig hefur hann fyrir utan áðurnefndan Brian Eno starfað með Robert Fripp, Nile Rodgers, Rick Wakeman og Mick Ronson. „Það besta fyrir samstarf, hvað mig varðar, er að í einangrun verða hugmyndirnir mínar oft óljósar. Þegar ég vinn með öðrum þarf ég að ydda þær og skilgreina til að tjá þær öðrum,“ sagði Bowie í viðtalinu.

Bowie bjó til persónu fyrir Outside plötuna sem hann nefndi Nathan Adler. Sá starfar sem einkaspæjari og sérhæfir sig í svokölluðum listaglæpum, það er alvarlegum glæpum sem framdir eru í nafni listarinnar. Platan er í raun næstum því eins og skáldsaga og hefur undirtitilinn The Diary of Nathan Adler or The Art-Ritual Murder of Baby Grace Blue. A Non-Linear Gothic Drama Hyper-Cycle (Dagbók Nathan Adlers eða listræna helgisiðamorðið á Baby Grace Blue. Ólínulegur gotneskur drama-ofur-hringur). Bowie segir að það séu trúarleg þemu á plötunni. „Einhvers konar pervertískur kaþólskur þráður í gegnum hana. Mamma mín var kaþólikki en pabbi mótmælandi, þannig auðvitað endaði ég á því að verða búddisti,“ segir Bowie og hlær við. „Það er þessi flöktandi sektarkennd sem er svo sterk í kaþólska hugarástandinu.“

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot

„Ég hef mikla samúð með gráu svæðunum í lífinu, þessum óljósu. Það sem erfitt að setja fingurinn á og útskýra. Það er líklega þess vegna sem ég nota miðla eins og tónlist og myndlist, ef ég væri maður orðsins gæti ég kannski útskýrt það betur, en þetta snýst meira um áferð og tilfinningu.“ Þá segist Bowie engan áhuga hafa á því sem er algjörlega miðlægt í poppmenningu samtímans. „Þegar fyrirbæri eru komin inn að miðju menningarinnar, þá vekja þau engan áhuga hjá mér lengur. Þú getur séð hvað er á leiðinni með því að fylgjast með jöðrunum, þau sem eru þar eru alltaf að vinna sig í átt að miðjunni. Hversu afbrigðilegt og skrýtið sem það er mun það allt hreinsast á leið sinni að miðjunni.“

Í viðtalinu rifjar Bowie upp orð japanska rithöfundarins Mishima sem sagði að fólk ætti að nýta sér dauðann með sama hætti og það nýtti sér lífið. Vangaveltur sem er auðvelt að sjá í nýju ljósi eftir einstaklega listræna útgöngu Bowies. Að lokum spyr svo Sindri út í fortíð Bowies og allar persónurnar. Hann segist ekki hafa áhuga á því lengur að taka á sig mynd persóna sem hann skapar, eins og á fyrri hluta ferils síns.

Á yngri árum sé hins vegar ákaflega brýnt að slá saman raunveruleikanum og valkvæðum veruleika. Bowie segir þá tilhneigingu ungmenna, að máta mismunandi gervi eða tileinka sér ákveðnar hugmyndir einn daginn en skipta þeim út næsta dag, iðulega afskrifaða af þeim sem eldri eru sem hluti af vandræðagangi æskunnar. Bowie telur þykjustuleikinn þjóna mikilvægum tilgangi og segir óráðlegt að bæla niður þá hvöt ungmenna að skipta um ham og hugmyndir. Hann sé hins vegar ekki þar lengur. „Það var ákveðinn samruni milli persónunnar sem var á sviði og persónunnar í raunveruleikanum í upphafi ferils míns. En ekki lengur, nú líður mér vel í hlutverki sögumanns eða höfundar. Það er kannski bara hluti af því að eldast.“

Sindri Freysson tók viðtalið og lagði út frá því, Guðni Tómasson setti saman. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni með því að ýta á play-takkann efst í færslunni.

Tengdar fréttir

Popptónlist

„Bowie var tónlistarlegt kjarnorkuver“

Popptónlist

22 ára gamalt viðtal við David Bowie á Rás 1

Myndlist

Listaverk úr dánarbúi Bowies rokseldust

Listaverkasafn Davids Bowies boðið upp