Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nýtt lag frá Valdimar og ný plata á leiðinni

Mynd: Valdimar / Facebook

Nýtt lag frá Valdimar og ný plata á leiðinni

08.03.2018 - 11:25

Höfundar

Hljómsveitin Valdimar sendir í dag frá sér lagið „Of seint“, sem er það fyrsta sem sveitin gefur út í um eitt og hálft ár en fjórða breiðskífa sveitarinnar er væntanleg í lok sumars. Valdimar Guðmundsson söngvari og Kristinn Evertsson hljómborðsleikari heimsóttu Poppland í dag þar sem nýja lagið var frumflutt

Síðasta lag sem Valdimar sendi frá sér var „Slétt og fellt,“ en það kom út í október árið 2016 og var valið rokklag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í fyrra. „Við erum mjög lengi að þessu, eftir tíu ár verður komin ný plata,“ segir Valdimar og hlær. „Nei við ætlum reyndar að taka næstu lög aðeins hraðar út. Við erum búnir að vera vinna síðustu mánuði að því að klára næstu plötu og þetta er nýjasti singullinn. Við stefnum á útgáfu á nýrri plötu í haust, og erum búnir að vera tala um 1. ágúst,“ segir Valdimar.

Mynd: Valdimar / Facebook
Valdimar - Of seint

Lagið „Of seint“ hefur verið nokkurn tíma í vinnslu. „Þetta lag var allt öðruvísi þegar við byrjuðum að vinna í því, bara eitthvað post-rokk lag með muffluðum söng. En svo breyttist það í rokk skástrik diskó, popp-rokk eitthvað. Þetta er búið að vera smá ferli en eins og reyndar flest lögin á þessari plötu þá breytast þau mikið frá því að við byrjum að vinna með þau fyrst,“ segir Valdimar.