Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Nýtt hótel í Mývatnssveit

16.10.2013 - 20:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Nýtt hótel í sunnanverðri Mývatnssveit á að koma til móts við aukinn fjölda ferðamanna. Hugmyndir eru um að setja upp skólphreinsistöð fyrir hótelið til verndar umhverfinu.

Meðal fjárfesta í framkvæmdunum eru stjórnendur Avis og Budget bílaleiganna. Hótelið verður 3000 fermetrar, hótelrými í Mývatnssveit eykst um 60% með tilkomu hótelsins, sem opnar næsta sumar og er þegar farið að taka við bókunum. 

„Það hafa verið miklir biðlistar hérna á sumrin, frá tímabilinu júní til ágúst, og það hefur örugglega verið hægt að bóka hótelin hérna tvisvar þrisvar sinnum ef þau hefðu haft pláss, þannig það er full þörf á þessu,“ segir Margrét Hólm Valsdóttir hótelstýra. 

Náttúra Mývatns er einstök á heimsvísu. Margrét segir nauðsynlegt að haga rekstri og umsýslu vegna ferðamanna svo að ekki sé gengið nærri umhverfinu, þannig sé stefnt að því að hafa hótelið eins umhverfisvænt og kostur er á.  „Við höfum verið að skoða það að setja upp hreinsistöð við hótelið þar sem skolpið yrði hreinsað, það yrði semsagt ekki þessi venjulega rotþróarleið heldur sérstök hreinsistöð,“ segir hún.