Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýtt frá JóaPé x Króla, MIMRU og Freyjólfi

Mynd: RÚV+ / RÚV

Nýtt frá JóaPé x Króla, MIMRU og Freyjólfi

05.01.2020 - 14:54

Höfundar

Það er nóg að gerast í íslensku poppsenunni og í Undiröldunni heyrum við það helsta. Útgáfuárið 2020 fer hressilega af stað með útgáfum frá rapppésunum JóaPé x Króla, tónlistarkonunni Mimru og Freyjólfi.

JóiPé x Króli - Geimvera

Rappdúettinn JóiPé x Króli sendu á föstudaginn frá sér lagið Geimvera þar sem þeir fara aftur í tímann eftir innblæstri. Á tökkunum við pródúseringu voru JóiPé, Starri On The Beat og Magnús Jóhann en Styrmir sá um mix og GsMastering um masteringu.


Freyjólfur - Í fjallinu slær hjarta mitt

Tónlistarmaðurinn, eftirhermann, dagskrárgerðarmaðurinn og húsfreyjann Freyr Eyjólfsson hefur sent frá sér sína aðra sólóplötu undir nafninu Freyjólfur. Nýja platan sem kom á streymisveitur um miðjan desember í fyrra heitir Brottfarir en árið 2018 sendi hann frá sér plötuna Komur sem var tekin upp í eldhúsi Freys í Brooklyn.


Sykur - Sefur svo fast

Eftir átta ára bið sendi Sykur frá sér plötuna Játakk í lok október en stuðlagið Svefneyjar var fyrsti útvarpssöngull af henni. Platan er sú þriðja í röðinni frá þessum hressa kvartett og það er annað lag sem tengist svefni sem er að byrja gera það gott á Spotify.


MIMRA - Right Here Where You Belong

Right Where You Belong er nýtt lag sem Mimra var að senda frá sér nú í blábyrjun árs. Textinn er nokkurs konar janúarsálarmessa, skilaboð frá ástvini til þess sem er að glíma við andlega erfiðleika, kvíða eða þunglyndi. Lag og texti er eftir MIMRU sem er listamannsnafn tónlistarkonunnar Maríu Magnúsdóttur.


Ásgeir - Lazy Giants

Lazy Giants er af væntanlegri plötu Ásgeirs, Bury The Moon en áður hefur komið út lagið Bernskan sem er af plötunni Sátt. Það er sem sagt ljóst að það koma út tvær útgáfur frá ÁsgeirI þann 7. febrúar.


Prins Póló + FM Belfast - Ekki nokkuð

Að venju horfðu allir á Skaupið og það kom í hlut Prins Póló og FM Belfast að keyra stuðið í gang fyrir nýja árið. Ekki nokkuð er pólítískt stuðlag byggt á ummælum Hannesar Hólmsteins um Gretu Thunberg sem voru vægast sagt frekar umdeild.


Grísalappalísa - Týnda rásin

Það var langt og strangt sköpunarferli sem færði okkur þriðju plötu Grísalappalísu - Týndu rásina, en hún var í smíðum í þrjú ár og inniheldur 15 ný lög úr ranni hljómsveitarinnar og þar á meðal er titillagið, auto-tune arían Týnda rásin.


The Complex Connection - Mind Collectors

Elektrópopp-sveitin The Complex Connection var að senda frá sér plötuna Quantum Satellite sem inniheldur 10 lög. Liðsmenn eru ekki nýgræðingar í íslenskri tónlistarsenu og hafa til dæmis verið í hljómsveitunum Lada Sport og Japanese Super Shift Tónlist The Complex Connection er undir áhrifum frá nýrómantík níunda áratugarins og yfirnáttúrulegum fyrirbærum.