Nýtt femínískt veftímarit

Mynd: Sóla Þorsteinsdóttir og Stein / Sóla Þorsteinsdóttir

Nýtt femínískt veftímarit

14.09.2018 - 10:44
Flóra er nýtt óháð feminískt veftímarit. Sóla Þorsteinsdóttir og Steinunn Ólína Hafliðadóttir pistlahöfundar kíktu í Núllið og ræddu tildrög þess að Flóra varð til.

Byrjaði á Twitter
Ritstýra Flóru er Elínóra Guðmundsdóttir en tildrög tímaritsins eru þau að hún spurði fylgjendur sína á Twitter hvort þeir vildu búa til feminískt rit með henni. Það stóð ekki á svörunum, fylgjendur Elínóru höfðu mikinn áhuga og smám saman varð til heilsteyptur kjarni sem gaf loks út tímaritið á dögunum.

Feminískt fjölmiðlaefni fyrir alla
Að mati Steinunnar eru fjölmiðlar enn að beina ákveðnum fréttum til kvenna og öðrum fréttum til karla og ýta þannig undir staðalímyndir kynjanna. Í kynjafræði er gjarnan rætt um hugtökin hart og mjúkt fjölmiðlaefni. Undir hið harða falli þá til dæmis greinar um stjórnmál, pólitík og tölvur en undir hið mjúka falli fjölmiðlaefni um umhverfismál, jafnrétti og menntun. Þessu vilja aðstandendur Flóru vinna gegn með því að búa til fjölbreytt fjölmiðlaefni fyrir alla sem einblínir ekki á kyn.

Fyrsta útgáfan komin í loftið
Þessa dagana er verið að gefa út fyrstu útgáfu tímaritsins. Það er ekki gefið út allt í einu heldur er efnið sett á netið í nokkrum þrepum dagana 13.-17. september. Viðfangsefni fyrstu útgáfunnar eru ansi fjölbreytt, en nú eru meðal annars komnar út greinar um umhverfisvernd og feminískan landbúnað.

Viðtalið við Sólu og Steinunni Ólínu (og hjalið í syni Sólu) má heyra í spilaranum hér að ofan.