Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Nýtt dómsmálaráðuneyti

26.08.2014 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Stofnað verður nýtt ráðuneyti dómsmála sem mun heyra undir forsætisráðherra. Málefni lögreglunnar, ákæruvaldsins og dómstóla verða þar með flutt úr innanríkisráðuneytinu

Forsætis- og fjármálaráðherra hafa fundað síðustu tíu daga um skiptingu málefna dóms- og ákæruvalds innan stjórnarráðsins eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra baðst undan málefnum dóms- og ákæruvalds. Það gerði hún í framhaldi af því að aðstoðarmaður hennar var ákærður en hann er grunaður um að hafa lekið minnisblaði um hælisleitanda til fjölmiðla. Hanna Birna leysti aðstoðarmann sinn frá störfum og baðst í framhaldi af því undan málefnum dóms- og ákæruvalds. Það eru tvö af 37 málefnum sem ráðuneytið fer með samkvæmt forsetaúrskurði.  Forsætis- og fjármálaráðherra hafa nú ákveðið að  lögreglumál fylgi málefnum dóms- og ákæruvalds og að stofnað verði nýtt dómsmálaráðuneyti.

Forsætis- og fjármálaráðherra biðja forseta Íslands að staðfesta breytingar á forsetaúrskurði í dag en úrskurðurinn kveður á um skiptingu málefna milli ráðuneyta.