Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nýtt aðalskipulag Akureyrar samþykkt

15.03.2018 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: Carolien Coenen - Flickr
Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar hefur samþykkt nýtt Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030. Skipulagið tók talsverðum breytingum frá því tillaga um það var auglýst 1. desember.

Á meðal þess sem breyttist var að lega jarðstrengja var felld að bæjarlandinu og smábátahöfn við norðurenda flugbrautar Akureyrarflugvallar var felld út. Þá var íbúðarsvæði í Kotárborgum minnkað, þétting byggðar nálægt íþróttasvæðum skilyrt stefnumótun um uppbyggingu íþróttamannvirkja, þéttingarsvæði í Síðuhverfi var fellt út og fjöldi íbúða á svæði ofan Glerártorgs var minnkaður.

Styttri ferðatími milli vinnu og heimilis

Í greinargerð með aðalskipulaginu segir að þar sé gert ráð fyrir að uppbygging íbúðasvæða rúmist öll innan þéttingarsvæða og á byggingarsvæðum í norðurhluta bæjarins, í stað þróunar til suðurs eins og eldra skipulag gerði ráð fyrir. Uppbygging atvinnusvæða hafi síðastliðinn áratug einskorðast við nágrenni Krossaness í norðurhluta bæjarins. Með því að byggja upp íbúðarhverfi þar í nágrenninu, í stað þess að byggja upp suður af Naustahverfi, ásamt þéttingu byggðar, megi stytta ferðatíma milli vinnu og heimilis. Þannig megi auka við lífsgæði íbúa, nýta innviði betur og auka umhverfisgæði.

Margt kallað á endurskoðun aðalskipulags

„Fleira hefur þó kallað á endurskoðun skipulagins. Akureyri, Hrísey og Grímsey hafa sameinast í eitt sveitarfélag án þess að skipulag svæðanna hafi verið samþætt. Ný skipulagsreglugerð sem tók gildi 2013 hefur breytt efnistökum aðalskipulags og framsetningu. Eins eru breyttar áherslur í dag í skipulagsmálum, með aukinni áherslu á betri nýtingu lands með tilliti til ýmissa þátta eins og nýtingu innviða, verndunar og sjálfbærrar þróunar,“ segir orðrétt í greinargerðinni.

Umhverfi og þjónusta við aldraða

„Loks hefur hægt á íbúafjölgun, ekki bara hér heldur á landinu öllu og aldurssamsetning er að breytast með hækkandi lífaldri. Hvort tveggja hefur mikil áhrif á bæjarfélagið í heild sinni. Áskorun nútímasamfélags er í auknum mæli að svara spurningunni um hvernig við getum tryggt umhverfi og þjónustu við aldraða og þannig viðhaldið lífsgæðum lengur með góðu skipulagi - svo við getum lifað lengur heilbrigðu, sjálfstæðu lífi á eigin heimili.“

40 breytingar frá fyrra skipulagi

Fram kemur að um 40 breytingar hafi verið gerðar á núgildandi aðalskipulagi á gildistíma þess. Þá þurfi nýkjörin sveitarstjórn ávallt að taka afstöðu til hvort endurskoða beri aðalskipulag við upphaf kjörtímabils. Tillaga að nýju aðalskipulagi hafi nú verið send Skipulagsstofnun til lokaafgreiðslu og við gildistöku hennar falli eldra skipulag úr gildi.