Nýsköpun í matvælaframleiðslu skapi tækifæri á Íslandi

12.11.2019 - 08:21
Mynd: RÚV / RÚV
Krafa um aukna nýsköpun í matvælaframleiðslu gæti skapað tækifæri hér á landi. Verslunareigendur segjast finna fyrir háværari kröfu viðskiptavina um umhverfisvænni kosti.

Með aukinni fólksfjölgun þarf matvælaframleiðsla í heiminum að aukast umtalsvert á næstu árum. Á Íslandi gætu leynst tækifæri vegna þessa, ekki síst í nýsköpun í framleiðslu þar sem tækniþróun í matvælageiranum er mjög hröð.

„Við erum í stöðu hér á Íslandi, til dæmis með jarðvarmann, sem við nýtum mjög takmarkað miðað við þá möguleika sem við höfum, að fara miklu lengra með matvælaframleiðslu,“ segir Sigurður H. Markússon, meistaranemi í sjálfbærni við Cambridge-háskóla.

Hann segir að samhliða aukinni framleiðslu þurfi að draga úr landnotkun í landbúnaði og færa matvælaframleiðsluna yfir í stýrt umhverfi til þess að hlífa náttúrunni.

„Þarna eru gríðarlega tækifæri fyrir nýsköpun sem við þurfum að horfa á, vekja áhuga og ýta nýsköpunarheiminum inn í þessa átt. Þarna liggja tækifærin sem geta skapað gríðarlega möguleika hér.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Neytendur gera auknar kröfur

Það eru ekki bara matvælaframleiðendur sem standa frammi fyrir breytingum, heldur finna seljendur einnig fyrir auknum kröfum viðskiptavina um umhverfisvæna kosti.

„Þegar við erum að velja inn vörur í okkar vöruúrval, þá erum við að horfa til þess hversu umhverfisvænar þær eru meðal annars, til dæmis hversu mikið plast er í umbúðum og þess háttar. Þetta er allt sem við erum að skoða þegar við veljum hvaða vörur eru í sölu,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Og seljendur reikna með því að kröfur viðskiptavina muni síst minnka.

„Þegar þú stendur að taka ákvörðun um það hvað þú ætlar að kaupa, þá muntu gera kröfu um það í framtíðinni; ekki bara um innihaldslýsinguna og upprunalandið, heldur líka hversu mikið sótspor er að vörunni,“ segir Gréta.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi