Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Nýr vegur lagður meðfram Holuhrauni

12.05.2015 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í sumar verður lagður nýr akvegur við jaðar Holuhrauns í stað leiðarinnar sem fór undir hraun í eldgosinu. Öll umferð um sjálft hraunið er bönnuð, en þjóðgarðsvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði segir að gönguleið verði stikuð þar um leið og tækifæri gefst.

Til að komast keyrandi frá Drekagili við Öskju og áfram vestur að Gæsavötnum þarf að keyra akveg númer F910 og áfram um veg yfir Flæður. Þessi leið er jafnan nefnd Gæsavatnaleið. Við gosið í Holuhrauni rann hraunið yfir þessa leið og Gæsavatnaleið er því lokuð.

„Og ég er nýlega búinn að eiga fund með Vegagerðinni þar sem að hefur náðst samkomulag um hvernig við eigum að standa að því hvernig við færum í rauninni leiðina undan hrauninu", segir Hjörleifur Finnsson, þjóðgarðsvörður norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

Þá verður vegurinn færður frá Holuhrauni og í stað þess að fara yfir Flæður er hægt að fara hjáleið um Gígöldur. Gamla vegstæðið um Flæður fer væntanlega á kaf í vatn sem gert er ráð fyrir að safnist upp að vesturhluta Holuhrauns.

„Eins og menn þekktu Gæsavatnaleið um Flæður verður að öllum líkindum ekki lengur leið, þar sem að þar verður vatn".

Öll umferð um sjálft Holuhraun er bönnuð og Hjörleifur segir óljóst hvenær því banni verður aflétt. Starfsfólk þjóðgarðsins sé tilbúið að stika þar gönguleiðir um leið og það verði leyft. Hraunið sé þó gríðarlega úfið og hættulegt yfirferðar og stika þurfi öruggar leiðir framjá mestu hættunum.

„Þess vegna þarf í rauninni að fara mjög vel yfir leiðina áður en hún er stikuð og áður en er hleypt fólki á hana", segir Hjörleifur.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV