Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Nýr ráðherra horfir til Jóns Sigurðssonar

02.01.2015 - 19:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
„Það sem er úrgangur á einum stað er auðæfi á öðrum“ segir Sigrún Magnúsdóttir. Hún tók í dag við lyklavöldum í umhverfis - og auðlindaráðuneytinu. Hún kveðst ætla að spara stórar yfirlýsingar fyrstu dagana í embætti.

„Mér líður mjög vel hér og fann gríðarlega gott andrúmlsoft þegar ég kom hingað inn.“ Sagði Sigrún þegar hún kom í ráðuneytið í dag. Oft hefur gustað um umhverfisráðherra og málefni sem undir þá heyra eru jafnan umdeild. Sigrún kveðst ætla að spara stórar yfirlýsingar á meðan hún er að kynnast málunum betur.

Forveri hennar, Sigurður Ingi Jóhannsson, hugðist að afturkalla náttúruverndarlög síðustu ríkisstjórnar en niðurstaðan varð að fresta gildistöku þeirra. Þá lagði Sigurður Ingi til breytingar á rammaáætlun um nýtingu virkjanakosta. Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis vill ganga lengra og færa átta virkjanir úr bið í nýtingu. 

„Ég held að mér finnist það nú fullílagt að gera það, enn og aftur, ég ætla mér ekki að vera yfirlýsingaglöð á fyrsta degi. Ég ætla að kynna mér þetta, þetta er í þinglegri meðferð, það var þingnefndin sjálf eða formaðurinn sem kom með þessa hugmynd og ég veit að nefndin er að vinna að þessu núna. Þannig að mér finnst ekki eðlilegt að ráðherra tjái sig um það á þessu stigi.“

Sigrún kveðst horfa til Jóns Sigurðssonar og kvers hans Lítil fiskibók, sem kom út árið 1859.  „Þá er hann einmitt að kenna okkur Íslendingum dálítið um umhverfismál. Það sem er úrgangur á einum stað er auðæfi á öðrum og mér finnst það vera þessi hugsun sem við eigum að innræta okkur sjálfum sem og öðrum.“