Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nýr meirihluti í Hafnarfirði

31.05.2018 - 21:58
Mynd með færslu
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Mynd: Þór Ægisson
Rósa Guðbjartsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna verður bæjarstjóri í Hafnarfirði. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn og óháðir, sömdu undir kvöld um meirihlutasamstarf í bænum. 

Rósa segir að flokkarnir hafi fundið mikinn samhljóm í þeirra helstu málefnum. „Við höfum komist að samkomulagi um það að málefni eldri borgara og barnafjölskyldna verða í forgrunni en einnig verður líka rík áhersla lögð á fjármálin áfram og það er mjög mikilvægt að við höldum vel um hlutina þar áfram og við tökum á fjármálunum af ábyrgð og festu eins og verið hefur. En ekki síður að efla þjónustuna á ýmsum sviðum og auka skilvirkni í kerfinu,“ segir Rósa í samtali við fréttastofu.

Síðustu kjörtímabil hefur verið ráðinn bæjarstjóri, hvers vegna var ákveðið að fara þessa leið núna? „Það var samkomulag milli aðila, eftir þessar viðræður,“ segir Rósa.

Málefnasamningur flokkanna tveggja verður kynntur fljótlega eftir helgi. Ágúst Bjarni Garðarsson, oddviti Framsóknar og óháðra verður formaður bæjarráðs. Hann segir að áhersla verði meðal annars lögð á húsnæðismál í komandi málefnasamningi.

„Við erum að boða ákveðna framtíðarsýn um það hvernig við getum gert góðan bæ enn betri. Þar erum við að leggja áherslu á málefni barnafjölskyldna og eldri borgara einnig er ljóst að hér þarf að taka á húsnæðismálum. Þetta er svona meginstefið í þessum málefnasamningi milli flokkanna,“ segir Ágúst Bjarni í samtali við fréttastofu.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV