Nýr innanhús brettavöllur á Akureyri

03.11.2019 - 20:38
Mynd: Úlla Árdal / RÚV
Aðstaða til hjólabrettaiðkunar á Akureyri mun gjörbreytast á næstu misserum. Atvinnumaður á snjóbretti vinnur nú að því að koma upp nýrri aðstöðu innandyra. Aðstaðan hentar líka fyrir línuskauta, hlaupahjól og BMX og muni gera fólki kleift að iðka sína íþrótt allan ársins hring.

Eika Helgason, atvinnumanni á snjóbretti, hefur lengi dreymt um að koma upp brettapöllum innanhúss á Akureyri. Hann fann húsnæði í haust eftir langa leit og vinnur ásamt félögum sínum að því að koma því í rétt horf. Draumurinn er að ná að opna hluta af húsinu fyrir jól.

Undirbúningur fór af stað fyrir alvöru um síðustu áramót og segir hann ferlið vera töluvert meiri hausverk en hann hafði ímyndað sér. Það þurfi að gera þetta í sameiningu við heilbrigðiseftirlitið og samkvæmt stöðlum svo það sé mikil hugsun á bak við þetta. „En um leið og maður getur byrjað að nota þetta verður það allt þess virði,“ segir Eiki.

Sífellt meiri áhugi fyrir íþróttunum

Áhugi samfélagsins á framtakinu sé mikill, einstaklingar og fyrirtæki vilji ólm hjálpa til. Allir pallar á Akureyri séu utandyra og því hvorki hægt að nota í snjó né rigningu. Aðstaðan henti fyrir hjólabretti, línuskauta, hlaupahjól og BMX og muni gera fólki kleift að iðka sína íþrótt allan ársins hring. Hópur iðkenda á Akureyri hafi farið stækkandi síðustu ár og í lauslegri facebook-könnun hafi um hundrað lýst yfir áhuga á að kaupa árskort að pöllunum.

Hann telur aðstöðuna muna búa til skemmtilegt umhverfi í kringum sportið og fleiri nýir muni bætast í hópinn. Það hjálpi vonandi líka til gegn þeim ímyndarvanda sem greinin hafi alltaf barist við. „Það hefur alltaf verið stimpill, sérstaklega á hjólabrettaíþróttinni og þá aðallega hjá eldra fólki“, stimpillinn sé þó langt frá raunveruleikanum því þetta sé Ólympíugrein í dag.

Vonast eftir aðstoð frá bænum

Hann leitaði eftir aðkomu Akureyrarbæjar að starfseminni, fékk neitun en ákvað engu að síður að láta slag standa. Hann vonast til þess að Akureyrarbær muni sjá hag sinn í að stuðla að fjölbreyttara íþróttalífi í bænum. „Það væri alla vega mjög gott að fá aðstoð við þetta. Núna, fyrst maður er kominn með þetta í gang og búinn að plana allt og er byrjaður, þá eiginlega gæti ekki verið auðveldara fyrir bæinn að koma að þessu,“ segir hann.

Vill snjóbretta-skóla á Íslandi

Þá finnst honum fullt tilefni til þess að skoða hvort ekki sé hægt að koma upp hjólabretta- eða snjóbrettaskóla hér á landi eins og tíðkast á Norðurlöndunum, þar sé íþróttafólki hjálpað að ná lengra. Hann hafi sjálfur farið í snjóbrettaskóla til Svíþjóðar sem hafi gert gæfumun á hans ferli. Námið sé eins og verknám nema í stað þess að smíða sé farið á snjóbretti. „Þetta hjálpar þessum krökkum sem hafa bullandi áhuga á þessu sporti. Þetta gefur þeim meiri tíma til að stunda sínar íþróttir og ná að gera skólann með,“ segir Eiki.