Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nýr Herjólfur siglir ekki fyrr en í vor

26.09.2018 - 17:22
Mynd með færslu
Ný Vestmannaeyjaferja í skipasmíðastöð í Póllandi í ágúst 2018. Mynd: Vegagerðin
Ekkert verður af siglingum nýrrar Vestmannaeyjaferju með farþega milli lands og Vestmannaeyja fyrr en í vor. Siglingarnar áttu að hefjast í sumar en nú er útlit fyrir að nýr Herjólfur hefji ekki reglulegar siglingar fyrr en 30. mars. Þangað til heldur gamli Herjólfur áfram siglingum og sér Eimskip áfram um rekstur hans.

Þetta tilkynnti Vegagerðin í dag. Afhendingu nýju ferjunnar hefur seinkað verulega frá því sem stefnt var að þegar samið var um smíðina í janúar í fyrra. Þá var stefnt að afhendingu skipsins 20. júní í ár. Þá var gert ráð fyrir að nýja ferjan myndi sjá um siglingar þjóðhátíðargesta um Verslunarmannahelgina. Ekkert varð af því, bæði vegna breytinga á skipinu sem lengdu framkvæmdatímann og tafa í skipasmíðastöðinni í Póllandi. 

Í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að ekki sé vitað nákvæmlega hvenær nýja ferjan verður afhent. Nú er miðað við að það verði öðru hvoru megin áramóta. Það gæti samkvæmt því verið hálfu ári síðar en stefnt var að í upphafi.

Í umfjöllun RÚV undanfarið hefur komið fram að óvissa ríkti um hvenær siglingar hæfust. Það var bæði vegna tafa á afhendingu og vegna aðstæðna þegar skipið kemur til landsins. Upphaflega stóð til að fá nýju ferjuna að sumarlagi. Það hefði gefið áhöfninni og þeim sem reka ferjuna tækifæri til að kynnast henni við góðar aðstæður áður en vetrarveðrið setur svip sinn á siglingar. Því hugnaðist mönnum ekki að hefja siglingar í haust eða vetur. Vegna þess hversu seint ferjan verður afhent var því ákveðið að byrja reglulegar siglingar ekki fyrr en í vor, þegar sjólag batnar á ný.

Samningur Eimskips við Vegagerðina um rekstur gamla Herjólfs átti að gilda til áramóta, eða þar til ný ferja hæfi siglingar ef það gerðist fyrir áramót. Nú hefur verið samið við Eimskip um að halda siglingum áfram eftir áramót.