Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nýr gagnaleki í anda Panama-skjalanna

25.10.2017 - 01:36
Evruseðlar.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Upplýsingar um viðskiptahætti og eignir margra ríkustu manneskja heims verða gerðar opinberar á næstunni. Brotist var inn í tölvukerfi lögmannsstofunnar Appleby og þaðan stolið gögnum. Appleby er með aðsetur á Bermúdaeyjum.

Samkvæmt yfirlýsingu frá Appleby hafa blaðamenn frá sömu fjölmiðlum og ljóstruðu upp um Panama-skjölin í fyrra haft samband við lögmannsstofuna. Þar segir jafnframt að eftir mikla eftirgrennslan geti lögmannsstofan greint frá því að hvorki hún né viðskiptavinir hennar hafi gert nokkuð ólöglegt. Öllum ásökunum um annað er vísað á bug. Þá segir að Appleby sé reiðubúið í fullt samstarf við réttmæt yfirvöld ef til opinberrar rannsóknar kemur.

Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, og fjölmiðlar á borð við Guardian og Süddeutsche Zeitung ljóstruðu upp um eignir fjölda fólks í skattaskjólum í fyrra þegar Panama-skjölin voru opinberuð. Þau leiddu meðal annars til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, hrökklaðist úr embætti.

ICIJ hefur enn engar upplýsingar birt frá Appleby, en lögmannsstofan segir gögnunum að öllum líkindum hafa verið stolið í fyrra. Að sögn breska dagblaðsins Telegraph eru miklar líkur á því að meðal gagnanna sé að finna ítarlegar upplýsingar um ríkasta fólk Bretlands. Búist er við því að því að gögnin verði opinberuð á næstu dögum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir