Nýnemum í starfsnámi fjölgaði um rúm 9%

05.07.2018 - 10:54
Nemi í húsasmíð í Tækniskólanum.
 Mynd: Dagur Gunnarsson
Nýnemum á framhaldsskólastigi, sem velja starfsnám, voru 9,4 prósentum fleiri haustið 2017 en árið á undan. Stúlkum fjölgaði meira en drengjum, eða um 19.2 prósent. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Þrátt fyrir að stúlkum hafi fjölgað meðal nýnema í starfsnámi eru drengir þó enn í miklum meirihluta, 64,5 prósent.

Nýnemum á framhaldsskólastigi með erlendan bakgrunn fjölgaði í fyrra um tæp tvo prósentustig frá fyrra ári. Um 19,1 prósent allra nýnema höfðu erlendan bakgrunn haustið 2017. Til nýnema með erlendan bakgrunn teljast innflytjendur, önnur kynslóð innflytjenda og nemendur sem eiga eitt erlent foreldri. Mest var fjölgunin meðal annarrar kynslóðar innflytjenda, 30,6 prósent og meðal innflytjenda, um 18,1 prósent.

Í samantekt Hagstofunnar er nám flokkað í bóknám og starfsnám samkvæmt alþjóðlegri menntunarflokkun. Hér má lesa samantekt um málið á vef Hagstofunnar.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi