
Dreifibréfum dreift á höfuðborgarsvæðinu í gær
Hreyfingin nefnist Nordfront, á íslensku Norðurvígi, og kalla sig pólitísk baráttusamtök sem aðhyllast þjóðernisfélagshyggju. Nordfront var stofnað árið 1997 í Svíþjóð af nýnasistum þar í landi, og eru einnig starfrækt í Finnlandi, Noregi og Danmörku.
Hreyfingin leitar nú að fylgismönnum hér á landi og var dreifibréfum frá hreyfingunni dreift í hús í gær, meðal annars í vesturbæ Reykjavíkur. Eiríkur Bergmann segir að hreyfingar á borð við Norðurvígi sæki í hugmyndina um aðgreiningu þjóða. „Það er rót allra þjóðernishreyfinga af þessum toga.“
Vilja skapa norrænt ríki
Hreyfingin segist hafa það að markmiði að skapa sjálfbært norrænt ríki með sameiginlegum her, gjaldmiðli og miðstýrðum banka, koma í veg fyrir að útlendingar flytjist til Norðurlanda og vill banna fjölmiðla sem vinna gegn norrænu fólki.
Þótt nýnasistar hafi áður reynt að hasla sér völl hér á landi, segir Eiríkur að Norðurvígi skeri sig úr. Alþjóðlegu nýnasistasamtökin Blood & Honor og Combat 18 héldu úti vefsíðum á Íslandi fyrir nokkrum árum.
„Þessi samtök eru hinsvegar gjörsamlega frábrugðin öllu því sem við höfum séð ná máli í íslensku stjórnmálum að þau hafa það bókstaflega að markmiði að leggja niður íslenska ríkið. Og að Íslandi verði lagt inn í norrænt yfirríki,“ segir Eríkur.
„Og þar með að öll arfleið og barátta Jóns Sigurðssonar og Fjölnismanna verði afgerð og hætt og snuíð til baka og Ísland selt undir yfirvald í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi á nýjan leik. Og það er nú ekki pólitík sem hefur náð mikilli útbreiðslu í seinni tíð.“
Fá líklega ekki mikla útbreiðslu
Eiríkur segir að þótt vissulega sé hljómgrunnur fyrir svona samtökum hér á landi en erfitt geti verið fyrir samtök nýnasista að ná útbreiðslu hér á landi, vegna smæðar samfélagsins. Málflutningur þeirra geti þó haft áhrif.
„En allt svona flytur umræðuna til og gerir annarskonar menningarbundinn rasisma viðurkenndari en áður, einfaldlega í samanburði við þá ógeðfelldu róttækni sem þarna birtist,“ segir Eiríkur.