Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Nýmarkaðsríkin stofna eigin alþjóðabanka

15.07.2014 - 21:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Nýmarkaðsríkin fimm, Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka, stofnuðu í dag formlega sinn eigin þróunarbanka til mótvægis við Alþjóðabankann. Ríkin leggja fram mörg þúsund milljarða íslenskar króna sem stofné og koma á laggirnar risavöxnum neyðarsjóð.

Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka mynda BRICS-hópinn svonefnda en þau eru öflugust nýmarkaðsríkjanna. Samanlögð landsframleiðsla þeirra nemur tæpum þriðjungi heimsframleiðslunnar og fer ört vaxandi.

Alþjóðlega fjármálakerfið er þó ekki sniðið að þörfum þeirra; ríkin hafa kvartað undan yfirgangi vesturveldanna í viðskiptum og sagt þau traðka á þróunarríkjum. Til að skapa mótvægi hafa BRICS-ríkin lengi stefnt að því að koma á fót eigin banka sem jafnast muni á við samskonar stofnanir á Vesturlöndum, eins og Alþjóðabankann.

Samkomulagið var formlega undirritað í dag og munu ríkin fimm öll leggja til stofnfé, fyrst tæpa sex þúsund milljarða íslenskar króna, en bankinn mun búa yfir tæplega tólf þúsund milljarða neyðarsjóð. Höfuðstöðvar nýja bankans verða í Shanghæ í Kína en fyrsti bankastjórinn verður Indverji.