Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Nýjung í íslensku leikhúsi

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Nýjung í íslensku leikhúsi

13.01.2017 - 11:39

Höfundar

Leikhúsgagnrýnandi Víðsjár minnist þess ekki að leikari hafi áður stigið á svið til þess að miðla í trúnaði brotum úr sínu einkalífi með þeim hætti og gert er í einleiknum Hún pabbi, sem nú er sýndur í Borgarleikhúsinu. „Slík meðferð fyrir leikara til að öðlast meiri sjálfsþekkingu  er eitthvað alveg öldungis nýtt í íslensku leikhúsi.“

Sýningin byggir á reynslu aðalleikarans Hannesar Óla Ágústssonar þegar faðir hans kom út úr skápnum sem transkona 57 ára gamall.


María Kristjánsdóttir skrifar:

Það var með hálfum huga sem ég fór á sýningu leikhópsins Trigger Warning á einleiknum  „Hún Pabbi“ eftir eftir þær Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur og Köru Hergils sem frumsýndur var á  Litla sviði Borgarleikhússins síðastliðinn föstudag.  Óttaðist auðvitað að þurfa að hlusta á viðkvæmar játningar fluttar í ótrúverðugum tilfinningaþrungnum semiStanislavskístíl þó aðalleikarinn Hannes Óli Ágústsson sé ekki beint þekktur fyrir það. En viðfangsefnið býður vissulega upp á tilfinningaklám : eftir áratuga feluleik  hefur faðir leikarans  nefnilega afhjúpað að hann sé kona en ekki karl.  Hvorki í handriti þeirra stallna né leikstjórn Péturs Ármannssonar fannst mér þó örla á slíku.

Einfaldleiki en ekki skrúð einkennir sýninguna. Þórdís Erla Zoega myndhöfundur býr til gráan málmvegg sem þversker allan bakgrunn litlasviðsins og á hann miðjan setur hún hringlaga hvítan strigaflöt sem eins og kastljós  sker að hálfu vegginn en teygir sig  einnig niður á sviðspall og á þeim helmingi stendur einn einmana stóll.  Til hliðar  er annar einmana hlutur míkrófónn á standi og fleira þarfnast leikurinn ekki nema að í framvindunni er varpað upp á bakvegg ljósmyndum og brotum úr kvikmyndum. Samspil myndar og lýsingar Kjartans Darra Kjartanssonar er oft áhrifamikill dramatískur effekt og studdur feykivel af tónlist Högna Egilssonar. Hvað eftir annað grípur maður beinlínis andann á lofti frammi fyrir kúnst lýsingarinnar.

Og eins og í dans og söngvamynd, sem heitið gæti „Lífið er kabarett“, birtist í upphafi Hannes Óli, leikarinn stórvaxni, snöggklipptur, stífgreiddur, í karlmannsskyrtu og buxum en á háhæluðum kvenskóm og með rauðmálaðar táneglur. Í þessu óræða kyngervi stígur hann dans sem lyftir áhorfendum. Svo hefst frásögnin, því að frásagnarleikhús er þetta. Einstaklingurinn, Hannes Óli kveðst ætla að segja okkur áhorfendum frá sambandi hans sjálfs og föður síns.  Það hátterni leikarans að stíga út úr hlutverkinu og tala í eigin persónu við áhorfendur má segja að sé orðið daglegt brauð í íslensku leikhúsi. En ég minnist þess ekki að í stóru atvinnuleikhúsunum hafi leikari  áður stigið á svið til þess að miðla okkur í trúnaði brotum úr sjálfsævisögu sinni, einkalífi. En er það raunverulega Hannes Óli sem talar til okkar? Er það sannleikur hans sem borinn á borð  þegar orðræðan er smíðuð  af öðrum, þeim Höllu Þórlaugu og Köru?

Form verksins  og frásagnaraðferð mætti rekja allt aftur til þriðja og fjórða áratugs síðustu aldar í evrópsku leikhúsi en  náskyld eru þau líka aðferð póstmódernískra sjálfsævisagna.  Raðað er upp og teflt gegn hvert öðru brotum úr minningum  Hannesar Óla um föðurinn sem hann miðlar okkur beint; brotum úr samtölum þeirra feðga sem hljóðmynd. Ljósmyndir  af þeim eru lagðar fram sem sönnunargögn. Brotum úr kvikmyndum er varpað upp sem nokkurs konar myndhvörfum , staðgenglum fyrir tilfinningar Hannesar Óla eða hlutverkaleik hans. Hann les upp úr sjálfsævisögu föðurins  Önnu Margrétar og  hringir símtöl, sem veita áhorfandanum upplýsingar  um flókna veröld transfólks í skipulögðu normi okkar hinna.

Frásagnarháttur og myndmál sýningarinnar  undirstrikar með ýmsum aðferðum að sá sem ber nafnið Hannes Óli er tvíræður, margræður: Hvenær er hann að sýna okkur trúnað, hvenær er hann í hlutverki leikpersónu ? spyrjum við okkur. Hvað er satt? Hvað rétt?

 Hannes Óli er í afstöðu sinni til föðurins oft mjög írónískur. Sumir kunna þar að sakna samkenndar, spyrja: á hann ekki eina , góða, fallega minningu um föðurinn? En þar kemur á móti að hann dregur líka óspart dár að sjálfum sér, viðbrögðum sínum við þeim vanda að eiga föður sem er ekki eins og „faðir á að vera“. Því mætti jafnvel  halda því fram að Hannes Óli stundi feluleik  einsog föðurímynd hans gerði, nema hann beitir vopni hlátursins til að breiða yfir tilfinningar svo sem ást og sársauka. Tilgangur húmorsins í sýningunni er þó vafalaust sá að frelsa okkur undan gægjuþörf, halda nauðsynlegri fjarlægð. Og eru atriði, svo sem þegar Hannes Óli missir höndina í Starwars stíl  og aðfangadagur jóla í faðmi hinnar heilögu fjölskyldu áhrifameiri en þau atriði þar sem spurt er um rétt og rangt eða þegar sú einfalda niðurstaða er dregin að maður verði bara að vera maður sjálfur.  Fæstir komast að því á þeirri einu ævi sem gefin er,  hverjir þeir eru sjálfir.

Hvert er þá gildi þessara sýningar ? Þessarar sviðsettu leitar  Hannesar Óla að minningum og upplýsingum til að skilja nýtt hlutverk sitt í heiminum? Kannski það að hún sé ágætis meðferð fyrir hann sjálfan, leikarann,  sem við áhorfendur á frumsýningu studdum hann heilshugar í. Og slík meðferð fyrir leikara til að öðlast meiri sjálfsþekkingu  er eitthvað alveg öldungis nýtt í íslensku leikhúsi.  Hvað hún merkir fyrir okkur áhorfendur á ég enn eftir að íhuga.

Textinn fer vel í munni, er oft launfyndinn  og verður áhugaverð og ákaflega faglega og fallega unnin heild í höndum allra aðstandenda og leikarans.  

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Falleg, fyndin og mikilvæg sýning

Leiklist

Fer ennþá á United leiki þó hann sé orðin kona