Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýjar vísbendingar um uppruna mannkyns

29.08.2019 - 04:58
Mynd með færslu
 Mynd: Dale Omori/Cleveland Museum of N
Kortlagning uppruna mannkyns tekur sífelldum breytingum vegna nýrra uppgötvana fornleifafræðinga. Nú þarf enn og aftur að endurskoða söguna, eftir að fornleifafræðingar fundu 3,8 milljóna ára höfuðkúpu í Eþíópíu. Beinin eru furðu vel varðveitt.

Höfuðkúpan er talin vera af mannapategundinni Australopithecus anamensins, og er sú fyrsta þeirrar tegundar sem finnst svo heilleg. Tegundin var talin hafa komið á undan þeirri sem ein þekktasta formóðir mannkyns er af, Australopithecus afarensis. Aldursmælingar á höfuðkúpunni sem hér um ræðir þýðir hins vegar að tegundirnar hafi átt samleið í Eþíópíu í að minnsta kosti 100 þúsund ár, að sögn vísindamanna.

Afarensis hafðist við í austanverðri Afríku fyrir þremur til fjórum milljónum ára. Vísindamenn telja þann legg Australopithecus hafa verið þann síðasta áður en Homo ættkvíslin tók við fyrir um 2,8 milljónum ára. Síðustu áratugi hafa vísindamenn fundið steingervinga í Eþíópíu og Kenía sem eru meira en fjögurra milljón ára. Flestir telja þá tilheyra Australopithecus anamensis.

Vinsælustu tilgáturnar eru þær að anamensis hafi þróast út í afarensis, en þær hafi ekki verið uppi á sama tíma. Nú gæti þurft að endurskoða þá tilgátu.
Höfuðkúpan fannst í Eþíópíu árið 2016 af hópi steingervingamannfræðinga undir leiðsögn Yohannes Haile-Selassie. Miðað við steingerðar tennur og kjálka höfuðkúpunnar bendir allt til þess að hún tilheyri anamensis ættkvísl Australopithecusa. Vegna þess hversu heilleg kúpan er geta vísindamenn notað hana til þess að greina betur steingerða búta úr höfuðkúpum sem fundust á níunda áratug síðustu aldar. 

Aldursgreiningin bendir til þess að anamensis og afarensis hafi ráfað saman um grundir austanverðrar Afríku á um 100 þúsund ára tímabili. Vísindamenn greinir þó á um hvort það geti staðist - ein höfuðkúpa sé ekki nóg til þess að draga þá ályktun.

Nánar er fjallað um höfuðkúpuna og rannsókn vísindamanna á henni í nýjasta tölublaði vísindaritsins Nature

Mynd með færslu
 Mynd: Encyclopædia Britannica
Hér er öfug tímalína mannkyns og forfeðra þess frá Britannica alfræðiorðabókinni. Þar má sjá að Australopithecus anamensis er talið hafa verið uppi talsvert á undan afarensis. Höfuðkúpan sem nú er til rannsóknar gæti breytt þessari tímalínu.
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV