Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Nýjar tegundir finnast í Surtsey

21.07.2015 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Æðarfugl og tvær nýjar tegundir háplantna fundust í fyrsta sinn í Surtsey í leiðangri vísindamanna þangað í liðinni viku. Jarðhiti hefur hækkað í eynni, mjög líklega vegna jarðskjálfta sem þar varð í vetur.

Borgþór Magnússon, plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og leiðangursstjóri, segir að æðarfugl hafi orpið í fyrsta sinn í Surtsey og tvær nýjar tegundir háplantna hafi skotið þar rótum. Jarðhiti hefur hækkað í eynni, líklega eftir jarðskjálfta sem þar varð í vetur.

Líffræðingar og jarðfræðingar frá Náttúrufræðistofnun voru við rannsóknir í Surtsey 13.-17. júlí ásamt sérfræðingum frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Umhverfisstofnun. 

„Það var að okkur fannst talsverð tíðindi að við þarna gengum þarna fram á æðarkollu með 3 unga nýklakta unga; við höfum ekki fundið hana í varpi þarna fyrr í Surtsey,“ segir Borgþór. 

Skilyrði eru erfið fyrir æðarfugl í Surtsey vegna brims og er ekki búist við að mikið æðarvarp verði þar í framtíðinni. Einnig fundust tvær nýjar tegundir háplantna. „Ljónslappa og stinnastör. Þetta eru nýjar tegundir í eynni og finnast ekki í öðrum úteyjum Vestmannaeyja og þar með erum við búin að finna 74 tegundir í Surtsey á þessum 50 árum sem rannsóknir hafa staðið þar og af þeim eru 64 á lífi.“

Einnig fundust tvær nýjar tegundir af fiðrildum og fleiri smádýr. Jarðfræðingar kortlögðu hitasprungur í bunkunum. „Það kom þeim nokkuð á óvart að hiti hefur hækkað í vesturbunkanum í sprungum þar. Hitinn hefur hækkað um 10 gráður frá því síðast var mælt fyrir tveimur þremur árum. Og þeir telja það tengist því að það varð jarðskjálfti við eyna eða í eynni núna í vor,“ segir Borgþór og bætir við: „Ég geri ráð fyrir að þetta sé þáttur í þróun og mótun eyjarinnar svona til langs tíma frekar heldur en þarna sé einhver virkni undir. Ég á nú frekar von á því en þessu verður jarðfræðingarnir að svara frekar en líffræðingurinn.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV