Nýjar stofnleiðir Strætó langt komnar

03.09.2019 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Vinna við nýtt leiðanet Strætó er nú á samráðsstigi eftir að fyrsta tillaga að drögum þess var kynnt í síðasta mánuði. Vinnan er langt komin er varðar stofnleiðir á höfuðborgarsvæðinu.

Faghópur um leiðakerfismál var stofnaður snemma á árinu. Hann er meðal annars skipaður fulltrúum ríkisins og allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, auk fulltrúa frá Samtökum um bíllausan lífstíl. Samtökin héldu fund í gær um nýtt leiðanet, en eitt af markmiðum þess er að aðlaga leiðanet Strætó að Borgarlínu.

Þar komu meðal annars fram drög að tíðnitöflum Strætó. Þar er gert ráð fyrir að á virkum dögum aki stofnleiðir á 7-10 mínútna fresti á annatíma. Þess utan eiga stofnleiðir að aka á 15 mínútna fresti yfir daginn, eins og almennar leiðir.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að á samráðsstiginu verði teknar til greina athugasemdir sem koma frá sveitarfélögunum og fleiri aðilum. Vinna við nýjar stofnleiðir er lengst komin, en meðal þess sem gert er ráð fyrir er að hluti þeirra verði síðar alfarið hluti Borgarlínu.

Á fundi Samtakanna um bíllausan lífsstíl í gær voru meðal annars kynntar niðurstöður úr könnun sem lögð var fyrir almenning á tímabilinu 23. maí – 19. júní. Alls bárust 1.953 svör þar sem 21% sagðist nýta strætó daglega. Flestir nýttu strætó í þeim tilgangi að komast til og frá vinnu.

Þá kom einnig fram að helstu markmið almenningssamgangna ættu að vera að draga úr þörf á einkabílnum, bæta loftgæði og draga úr umhverfisáhrifum. Þær ættu að vera aðgengilegar sem flestum heimilum og ættu að draga úr umferð.

Kynna á drög að nýju leiðaneti í október og á faghópurinn að skila skýrslu til stjórnar Strætó í nóvember.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi