Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýjar kosningar samþykktar í Bólivíu

24.11.2019 - 03:56
epaselect epa08020665 People participate in a rally to call for end of violence in the country, in El Alto, Bolivia, 23 November 2019. Hundreds of people attended the rally.  EPA-EFE/RODRIGO SURA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Báðar deildir þingsins í Bólivíu samþykktu í gærkvöld frumvarp sem opnar á möguleikann á því að hægt verði að boða til nýrra forsetakosninga í landinu. Sitjandi forseti, Jeanine Anez, þarf að skrifa undir frumvarpið svo það verði að lögum. 

Með frumvarpinu verða úrslit forsetakosninganna 20. október afskrifuð. Þá verður frambjóðendum sem tóku þátt í þeim kosningum bannað að bjóða sig fram í þeim næstu. Þannig er komið í veg fyrir að Evo Morales, sem hrökklaðist úr embætti, geti sett nafn sitt á kjörseðilinn.

Morales flýði til Mexíkó eftir að lögreglan og herinn tóku undir með mótmælendum eftir kosningarnar umdeildu. Hann á vart afturkvæmt til Bólivíu, því embættismenn hafa viðrað þá hugmynd að ákæra hann fyrir að kynda undir óeirðir og hryðjuverk í landinu eftir að stuðningsmenn hans flykktust út á götur borga Bólivíu eftir afsögn hans. Mótmælendur hafa lagt vegatálma í borgum, sem hefur leitt til skorts á eldsneyti og mat þar sem sendibílar komast ekki inn í borgirnar frekar en aðrir bílar.

Flokksfélagar Morales á þingi lögðu fram tillögu um friðhelgi hans í gær, degi eftir að hann var sakaður um að ýta undir hryðjuverk. Anez forseti hafnaði tillögunni, og sagði að enginn væri ofar lögum í landinu.

Að minnsta kosti þrjátíu og tveir hafa látið lífið í átökum milli öryggissveita og mótmælenda. Sitjandi ríkisstjórn landsins kallaði fulltrúa mótmælenda á sinn fund til þess að binda enda á óeirðirnar í landinu. Fylkingarnar hittust í gærkvöld.