Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nýjar áherslur hjá Listasafni ASÍ

Mynd: RÚV / RÚV

Nýjar áherslur hjá Listasafni ASÍ

06.04.2017 - 15:58

Höfundar

Mörgum brá þegar húsnæðið sem hýst hafði Listasafn ASÍ í tvo áratugi var selt. Ásmundarsalur við Freyjugötu var í huga margra samrunninn safninu. Nú, ári síðar, vaknar Listasafn ASÍ af værum blundi með margar nýjar hugmyndir í kollinum, en heimilislaust, engu að síður.

Safn er ekki hús

„Það er mikil eftirsjá af þessu húsi, það fer ekkert á milli mála,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir, forstöðumaður Listasafns ASÍ. „En safn er ekki hús. Safn er starfsemi og í okkar tilfelli er safneignin stór, þannig að þetta er bæði svolítið sárt en líka mjög spennandi, eins og allar svona stórar breytingar. Við þurfum að hugsa upp á nýtt og það er alltaf svolítið skemmtilegt.“

Nýjar stefnur í innkaupum og sýningarhaldi

„Það er þungur rekstur á svona sýningarsal, svo nú losnar svolítið um rekstrarfé þannig að við getum keypt meira inn og við leggjum mikla áherslu á að kaupa inn samkvæmt nýrri innkaupastefnu safnsins.“

Elísabet segir að ætlunin sé að halda sýningar út um allt land og dreifa þeim sem víðast, þó það verði líka sýningar á höfuðborgarsvæðinu.  

„Það verða tvær samhliða sýningar, þar sem við tökum verk úr safneigninni og förum með og kynnum, vekjum athygli á listamönnum og tilurð verka, og svo sýning á nýjum verkum í safneigninni sem við kaupum inn.“

Á næstunni mun safnið auglýsa eftir tillögum frá listamönnum, að verkum fyrir safneignina, en hugmyndin er að verkin endurspegli tíðaranda samtímans með afgerandi hætti, annað hvort í vali á viðfangsefni eða miðli.

Opnar geymslur

Ásamt Elísabetu, sem gegnir stöðu forstöðumanns Listasafns ASÍ, skipa listfræðingarnir og sýningarstjórarnir Dorothée Kirch og Heiðar Kári Rannversson nýtt listráð Listasafns ASÍ 2017-18. 

Elísabet segir ráðið vera að skoða leiðir til þess að auka aðgengi almennings að safneigninni , sem um þessar mundir er öll í geymslum. Einn möguleikinn er að gefa fólki kosti að ganga þar um undir leiðsögn aðstandenda safnsins. 

„Við erum að skoða að byggja upp geymsluhúsnæði þannig að það sé mjög rúmt og aðgengilegt, svo við getum verið með dagskrá og reglulega opnunartíma og það sé hægt að skoða öll verkin í geymslunum, alltaf,“ segir Elísabet sem er á leiðinni til Basel í Sviss til þess að skoða safnið Schaulager, sem byggt er upp á þennan hátt. 

„Þetta held ég að geti orðið okkar sérstaða, en við þurfum að finna hentugt húsnæði sem er viðráðanlegt.“