Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Nýja hraunið enn nafnlaust

19.05.2015 - 15:26
Mynd: Ómar Ragnarsson
 Mynd: Ómar Ragnarsson
Nýja hraunið sem myndaðist í eldgosinu í Holuhrauni hefur ekki enn fengið nafn. Beðið er eftir skipun nýrrar örnefnanefndar en rúmlega einn og hálfur mánuður er síðan að gamla nefndin hætti. Sveitarstjóri Skútustaðahrepps segir að fram séu komnar hugmyndir um hvernig mætti standa að nafngiftinni.

Sveitarstjórnir nefna ný náttúrufyrirbæri

Landsvæði nýja hraunsins tilheyrir Skútustaðahreppi og samkvæmt nýjum lögum um örnefni skulu sveitarstjórnir nefna ný náttúrufyrirbæri í samráði við örnefnanefnd. Lögin voru samþykkt um miðjan mars. Þá sagði sveitarstjóri Skútustaðahrepps að stefnt væri að því að afgreiða málið sem fyrst. Síðan eru liðin um einn og hálfur mánuður en þegar að nýju lögin voru samþykkt var örnefnanefnd leyst frá störfum.

Vantar enn tvær tilnefningar

Menntamálaráðherra skipar nýja nefnd að fengnum tilnefningum frá umhverfisráðherra, innanríkisráðherra, Stofnun Árna Magnússonar og Íslenskri málnefnd auk þess sem menntamálaráðherra skipar einn fulltrúa sem er formaður nefndarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu rann fresturinn til að tilnefna í nefndina út 24. apríl en enn er beðið eftir tilnefningum frá tveimur aðilum. Vonast er til að það takist að klára málið á næstu vikum. 

Eru með hugmyndir um hvernig standa eigi að nafngiftinni

Jón Óskar Pétursson sveitarstjóri Skútustaðahrepps sagði í samtali við Fréttastofu að ekki væri búið að ákveða nafnið á hrauninu en hins vegar væri búið að fjalla um málið í sveitarstjórn og móta hugmyndir um hvernig mætti standa að nafngiftinni. Hann segir að beðið sé eftir því að örnefnanefnd verði skipuð svo hægt verði að taka næstu skref.