Ný tjörn við Hellisheiðarvirkjun

18.05.2012 - 20:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný tjörn hefur myndast skammt frá Hellisheiðarvirkjun. Vatnið í tjörninni er volgt en Orkuveita Reykjavíkur segir að vatnið komi ekki frá virkjuninni heldur hafi náttúrulegar skýringar.

Tjörnin er aðeins steinsnar frá Hellisheiðarvirkjun og ljóst að ekki er langt síðan hún myndaðist. Á loftmynd af svæðinu má aðeins sjá eina tjörn, svonefnda Draugatjörn. Ómar Ragnarsson tók mynd af tjörninni þegar hann flaug yfir svæðið fyrir skömmu og má þar sjá að tjarnirnar eru orðnar tvær. Við birtum myndina strax og hægt er. 

Vatnið sem myndar nýju tjörnina rennur í læk meðfram veginum að virkjuninni. Vatnið í tjörninni er volgt. Eitt af skilyrðunum fyrir starfsleyfi Hellisheiðarvirkjunar er að öllu vatni sem notað er í vikjuninni sé dælt aftur niður í jörðina. Þetta er gert til að affallsvatnið mengi ekki grunnvatn á svæðinu.

Einar Gunnlaugsson, deildarstjóri rannsókna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sagði í samtali við fréttastofu í dag að vatnið sem myndar nýju tjörnina komi hins vegar ekki frá Hellisheiðarvirkjun. Líklega væri um leysingavatn að ræða, eða þá vatn frá heitum uppsprettum í Sleggjubeinsdal fyrir ofan virkjunina. 

Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sem hefur eftirlit með virkjuninni, hafði ekki heyrt um málið þegar fréttastofa talaði við hana í dag.